Lífið

Stöð 2 bjargar Söngkeppni framhaldsskólanna

Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, segir að útsendingin verði í opinni dagskrá og því geti framhaldsskólanemendur tekið gleði sína á ný.
Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, segir að útsendingin verði í opinni dagskrá og því geti framhaldsskólanemendur tekið gleði sína á ný.

„Við höfum fylgst með þessum gríðarlega áhuga sem er á þessari keppni almennt og þegar ljóst var að RÚV myndi ekki hopa með sína ákvörðun var bara ákveðið að slá til enda er þetta vinsælt sjónvarpsefni," segir Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2.

Stöð 2 og AM Events, sem sjá um skipulagningu söngkeppni framhaldsskólanna, náðu í gær samkomulagi um að sýna beint frá keppninni á Akureyri í opinni dagskrá.

„Þetta er bara tilhlökkunarefni fyrir okkur," segir Pálmi og bætir því að þeir setji ekki fram neinar kröfur um að lögin séu stytt eða eitthvað í þá veru.

Einar Ben. hjá AM Events sagðist í samtali við Fréttablaðið vera himinlifandi yfir þessari niðurstöðu. „Ég held að ég mæli fyrir munn allra sem koma að þessari keppni að þetta eru mikil gleðitíðindi og þetta verður mun glæsilegra en mörg undanfarin ár."

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá í þessari viku ákvað RÚV að sýna ekki frá Söngkeppni framhaldsskólanna eins og gert hefur verið undanfarin ár. Þetta olli mikilli reiði meðal framhaldsskólanema og í kjölfarið var stofnuð Facebook-áskorendasíða þar sem hátt í tíu þúsund manns skoruðu á RÚV að endurskoða þessa ákvörðun sína enda væri þetta vinsælt sjónvarpsefni meðal ungra sem aldinna. Hvorki Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri RÚV, né Páll Magnússon sjónvarpsstjóri voru reiðubúnir að skipta um skoðun en til greina kom að taka eitthvert efni upp og sýna seinna. Hins vegar geta framhaldsskólanemendur nú tekið gleði sína á ný og hlakkað til 18. apríl þegar keppnin fer þar fram. - fgg

Coca Cola er aðalstuðningsaðili þessarar útsendingar Stöðvar 2.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.