Innlent

DV dæmt til þess að greiða skaðabætur

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Fyrrverandi blaðamaður DV, Trausti Hafsteinsson, var dæmdur til þess að greiða Áslaugu Herdísi Brynjarsdóttur sjö hundruð þúsund krónur fyrir frétt sem hann skrifaði í DV í ágúst árið 2007. Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Áslaug höfðaði einnig mál á hendur Hauki Arnþórssyni sem var í viðtali við blaðið. Í dómsorði segir að hann hafi ekki verið ábyrgur fyrir greinaskrifunum þar sem hann samþykkti ekki viðtalið sérstaklega né fékk hann að lesa það yfir fyrir birtingu.

Fréttin fjallaði um að eiginmaður Áslaugar, Ingjaldur Arnþórsson, hafi rekið meðferðarheimili að Laugalandi í Eyjarfirði ásamt Áslaugu. Þar var sagt frá því að hann hefði í þrígang verið tilkynntur til barnaverndaryfirvalda á Akureyri.

Í kjölfarið kærði Ingjaldur greinahöfundinn Trausta til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands sem fann hann sekan um að hafa orðið uppvís af alvarlegu broti.

Í dómsorði segir að Haukur á að hafa látið falla ummæli um Áslaugu um að hún hefði reynt að svipta sig lífi. Alls féllu sex ummæli þess eðlis en Áslaug var þó aldrei nefnd á nafn í greininni. Aftur á móti kom fram að hún væri eiginkona Ingjalds og því nafnleyndin til lítils.

Í niðurstöðu dómsins segir orðrétt: „Með öllum framangreindum ummælum, sem að mati dómsins tekur þó ekki til annarra ummæla sem um það eru tilgreind, er á grófan hátt brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda. Með því að skírskota á ýkjukenndan og einkar óviðfelldinn hátt til andlegra veikinda stefnanda, slíkra sem sætt hafa almennum fordómum og mun svo enn vera að nokkru marki, er freklega vegið að æru stefnanda með móðgunum [...]."

Haukur Arnþórsson var sýknaður en Trausti skal greiða Áslaugu 700 þúsund krónur og málskostnað hennar upp á 450 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×