Innlent

Útúrsnúningar og aulaafsakanir í Grindavík

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Sigmar Eðvardsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Grindavíkur, og bæjarstjórinn Jóna Kristín Þorvaldsdóttir.
Sigmar Eðvardsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Grindavíkur, og bæjarstjórinn Jóna Kristín Þorvaldsdóttir.
Sjálfstæðisfélag Grindavíkur sá ástæðu til að snupra oddvita sinn í bæjarstjórn vegna skrifa hans á heimasíðu Grindavíkurbæjar. Pistillinn er afar harðorður í garð fráfarandi bæjarstjóra þar sem bæjarstjórinn er meðal annars sagður hafa verið með útúrsnúninga og aulaafsakanir í fjölmiðlum. Búið er að fjarlægja pistillinn af vef bæjarfélagins og auk þess hefur honum verið talsvert breytt á heimasíðu oddvitans.

Mikill óróleiki hefur verið í bæjarpólitíkinni í Grindavík frá kosningunum vorið 2006. Skipt var um meirihluta síðasta sumar í og framhaldinu tók Samfylkingarkonan Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, við starfi bæjarstjóri. Áður en hún settist í bæjarstjórn starfaði hún sem prestur í bæjarfélaginu. Nýverið var tilkynnt að Jóna Kristín taki á næstu mánuðum við Kolfreyjuprestakalli á Austfjörðum. Hún mun því fljótlega láta af störfum sem bæjarstjóri.

Telur pólitískri eyðimerkurgöngu ljúka með vænu brauði

Af því tilefni ritaði Sigmar Eðvardsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Grindavík, harðorða grein sem birtist á vef bæjarfélagins síðastliðinn mánudag sem bar heitið: „Pólitískri eyðimerkurgöngu er að ljúka með vænu „brauði": Sjálfskipaður bæjarstjóri."

Í greininni er ítrekað vitnað til þess að Jóna Kristín sé prestur. Greinin hefur nú verið fjarlægð af vef Grindavíkur en hægt er að lesa hana talsvert breytta á heimasíðu Sigmars.

Segir valdarán hafa verið framið

Sigmar segir valdarán hafa farið fram í bæjarfélaginu síðastliðið sumar þegar Jóna Kristín varð bæjarstjóri. Valdaránið hafi kostað bæjarfélagið mikla peninga.

Í tengslum við málefni Hitaveitu Suðurnesja, nú HS orku og HS veitu, segir Sigmar hafa verið grátlegt að heyra í fjölmiðlum útúrsnúninga og aulaafsakanir, séra Jónu Kristínar.

Eftir að greinin birtist sá Sjálfstæðisfélag Grindavíkur ástæðu til þess að snupra oddvita sinn. Í tilkynningu sem var birt á vef Grindavíkur í gær segir að félagið harmi skrif Sigmars og að félagið telji heimasíðu bæjarfélagins ekki vera vettvang fyrir slík skrif. Átök í fjölmiðlum síðustu misseri af hálfu bæjarfulltrúa séu ekki bænum til framdráttar.

Ekki náðist í Sigmar vegna málsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×