Lífið

Keðjan er lifandi

Stelpurnar úr Listdansskólanum læfa verk sitt og Láru fyrir förina til Finnlands í sumar.
Stelpurnar úr Listdansskólanum læfa verk sitt og Láru fyrir förina til Finnlands í sumar.

Neðan úr kössunum standa tveir grannir fætur og höfuð. Lára Stefánsdóttir, dansari og danshöfundur, er að vinna að verki ásamt ungum dönsurum sem lítur ekki dagsins ljós fyrr en í sumar. Þá verður verkið lagt saman við verk frá fimm öðrum Norður­löndum á fertugustu listdanshátíðinni í Kupio, sem er virtasta og stærsta danshátíð á Norðurlöndum.

Hlutur Láru og krakkanna er partur af svokölluðu Keðju-verkefni.

Keðja er verkefni sem ætlað er að styrkja stöðu dansins gagnvart öðrum listgreinum og þáttum menningarlífsins í Norður-Evrópu (Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Litháen).

Að baki þessum markmiðum liggur sú von að í gegnum Keðju verði til sterkt tengslanet sem verði gert kleift að vaxa og dafna og ná til fleiri landa í Norður-Evrópu.

Verkefnið Keðja hófst í nóvember 2007 og því lýkur í desember 2010. Það nýtur stuðnings Evrópusambandsins og norrænna sjóða og er stærsta verkefni sinnar tegundar í dansheiminum á þessu svæði.

Sex stórir viðburðir munu verða haldnir í fimm borgum Norður­landa auk Vilníus á þrem árum. Hver viðburður hefur sitt eigið tema og í öllum tilvikum er markmiðið að styrkja stöðu dansins gagnvart öðrum listgreinum eða þáttum menningarlífsins í Norður-Evrópu.

Til að líta til með Láru kom hingað í vikunni yfirhöfundur verksins, Isto Turpeinen. Hann hefur ferðast á milli Norðurlandanna og unnið með hverjum hópi og endaði hér.

Krakkarnir héðan slást í hóp nær fimmtíu ungra dansara í sumar. Dagskráin á hátíðinni er gríðarlega metnaðarfull: þangað koma mörg stór nöfn sem spanna danssöguna síðustu fjörutíu ár. Meðal þeirra má nefna Íslandsvinina Mats Ek sem ól hluta af æsku sinni hér og Jirí Kylián frá Nederlands Dans Theatre.

Verkið sem slegið verður saman úr atriðum frá löndunum sex kallast Corridor. Og það er ekki það eina sem dansararnir ungu munu njóta: í tengslum við sýningar Keðjunnar verður málþing þar sem 150 atvinnumenn víða að úr heiminum koma saman og deila ráðum sínum og reynslu í dansmenningu fyrir unga listamenn. pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.