Íslenski boltinn

Jónas: Skora á Bjarna að raka af sér hárið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jónas Guðni Sævarsson, leikmaður KR.
Jónas Guðni Sævarsson, leikmaður KR. Mynd/Daníel

Jónas Guðni Sævarsson var vitanlega ánægður með 2-1 sigur sinna manna í KR á Fjölni í opnunarleik Pepsi-deildar karla í dag.

Jónas Guðni skoraði sigurmark leiksins um miðbik síðari hálfleiksins eftir laglegan samleik við Baldur Sigurðsson, fyrrum liðsfélaga sinn úr Keflavík.

„Það var sætt að skora. Þetta setur pressu á Bjarna að raka af sér hárið. Við gerðum nefnilega lítið veðmál fyrir mótið um hver yrði fyrr til að skora. Þar sem ég vann veðmálið þarf hann nú að raka af sér hárið. Ég skora á hann að standa við það," sagði Jónas í léttum dúr.

„En það var frábært að vinna leikinn. Fyrri hálfleikur var ekki góður og mikið af slæmum sendingum hjá okkur. Í hálfleik settumst við svo niður og róuðum okkur niður."

„Við ræddum saman um hvað þyrfti að gera. Við þurftum að vera rólegri í okkar aðgerðum því við höfðum nægan tíma með boltann. Við fórum svo að spila einfalt á milli manna og uppskárum tvö mörk eftir það og unnum góðan sigur."

Hann segir það gott fyrir KR að fá Baldur til félagsins en sem fyrr segir þekkjast þeir vel frá því þeir léku saman í liði Keflavíkur. „Baldur er mjög góður leikmaður og spilaði vel í dag. Við vorum auðvitað allir stressaðir á boltanum í fyrri hálfleik en Baldur er með mikla hlaupagetu og sterkur í loftinu eins og sýndi sig í leiknum. Ég er gríðarlega ánægður með hann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×