Lífið

Forsetinn keypti listaverk af sjálfum sér

Breki Logason skrifar

Það er óhætt að segja að útskriftarverkefni Emils Magnúsarsonar Borhammar hafi vakið mikla athygli á útskriftarsýningu Listaháskólans á Kjarvalsstöðum fyrir skömmu. Verkin voru sýnd í sendiferðarbíl fyrir utan sýningarstaðinn og þurfti Emil meðal annars að færa bílinn þegar kosið var til Alþingis. Eitt verkanna var mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni að halda fyrir munninn á Dorrit Moussiaeff eiginkonu sinni. Ólafur kom og skoðaði verkið sem hann hefur nú keypt.

„Já hann kom og skoðaði sýninguna hjá okkur og ég sýndi honum verkið. Síðan spurði ég hvort hann vildi ekki kaupa og hann sagðist ætla að hugsa málið," segir Emil en um er að ræða málverk á tréplötu sem málað er með tússi og þykku akríl-lakki sem smurt er á myndina með kökuspaða.

„Síðan hringir hann bara tveimur vikum síðar og segist hafa áhuga á að kaupa verkið. Ég tek því strætó niður á skrifstofu hans niður í bæ og hann kaupir myndina," segir Emil en Ólafur borgaði fimmtíu þúsund krónur fyrir myndina.

„Já það er fínn díll. Ég var að selja hin verkin á svipuðu verði þannig að ég held að þetta hafi bara verið sanngjarnt. Hann fékk allavega engan afslátt," segir Emil og hlær.

Á myndinni heldur Ólafur fyrir munninn á Dorrit líkt og fyrr segir en það er tilvísun í fréttir sem bárust fyrir skömmu.

„Já þegar hann sagði við Dorrit að hún mætti ekki segja eitthvað. Allar myndirnar eru unnar í bland við það sem hefur verið í fjölmiðlum, slúðursögur og síðan mínar persónulegu skoðanir."

Emil segir að vel hafi gengið að selja verkin og hann sé nú þegar búinn að selja 12-13 verk.

Hann er nú útskrifaður af myndlistarbraut og ætlar að sækja um framhaldsnám í útlöndum eins og hann orðar það.

Hægt er að sjá myndir hér í albúminu að neðan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.