Erlent

Sendur til Íslands til að finna skúrka

Óli Tynes skrifar
Helge Skogseth Berg er 37 ára gamall.
Helge Skogseth Berg er 37 ára gamall.

Lynx heitir lítil lögfræðistofa sem norska blaðið Aftenposten segir frá. Þar verður fyrir svörum Helge Skogseth Berg sem er bæði lögfræðingur og löggiltur endurskoðandi.

Hann hefur meðal annars verið ráðgjafi hjá efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar í stórum sakamálum.

Aftenposten segir að vegna þessarar reynslu sinnar og menntunar hafi Eva Jolie handvalið hann til þess að aðstoða sig á Íslandi.

Helge Skogseth Berg segir við blaðið að hans hlutverk verði að komast að því hvað gerðist og hverjir beri ábyrgð, bæði refsiábyrgð og fjármálalega ábyrgð.

Einhverjir hafi orðið ríkir og sent íslensku þjóðinni reikninginn. Það virðist hafa verið gert á þann hátt að það sé ekki það sem maður búist við í þróuðu norrænu lýðræðisríki.

Aftenposten fer nokkrum orðum um ástandið á Íslandi. Segir meðal annars frá því að stofnað hafi verið embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka bankahrunið.

Blaðið segir að útrásarvíkingarnir sem eitt sinn voru þjóðhetjur á Íslandi geti nú varla sýnt sig á götum úti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×