Íslenski boltinn

Umfjöllun: Frammarar tóku öll stigin gegn Þrótti

Breki Logason skrifar
Almarr Ormarsson hefur spilað vel með Fram í sumar.
Almarr Ormarsson hefur spilað vel með Fram í sumar. Mynd/Vilhelm
Frammarar mættu Þrótti í kvöld  á Valbjarnarvelli. Fram var með ellefu stig í áttunda sæti fyrir leikinn en Þróttarar á botninum með fimm stig. Fyrri hálfleikurinn fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtun og gerðist fátt framan af. Frammarar áttu þó skot í stöng í lok hálfleiksins.

Seinni hálfleikur var hinsvegar bráðfjörugur og voru bæði lið staðráðin í að bæta upp fyrir slappan fyrri hálfleikinn. Fyrsta markið kom eftir tæpan klukkutíma leik. Þá datt boltinn fyrir fætur Daða Guðmundssonar sem kláraði vel með föstu skoti fyrir utan teiginn.

Hjálmar Þórarinsson skoraði síðan annað mark Fram á 77. mínútu þegar hann komst einn inn fyrir eftir frábæra sendingu frá Paul McShane.

Þróttarar minnkuðu svo muninn á 84. mínútu en þar var daninn Morten Smidt að verki. Leikurinn var nokkuð í járnum eftir það og settu Þróttarar góða pressu en náðu ekki að skora. Heiðar Geir Júlíusson innsiglaði síðan sigurinn þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma úr vítaspyrnu en brotið hafði verið á Paul McShane.

"Það var þungt yfir þessu í fyrri hálfleik og við náðum ekki að fylla teiginn þegar við komumst upp völlinn, það lagaðist sem betur fer í seinni hálfleik," sagði Daði Guðmundsson sem skoraði fyrsta mark Fram.

"Við vissum að þetta yrði hörkuleikur og það varð raunin. Þeir lágu vel á okkur síðustu tíu mínúturnar og því var gott að frá þriðja markið," sagði Daði ennfremur.

Daði var nokkuð sáttur með markið sem hann setti í leiknum enda stórglæsilegt. "Ég er mjög sáttur en boltinn datt þarna fyrir fæturnar á mér og ég var bara fyrstur á hann, hitti hann líka vel."

Frammarar fljúga síðan út til Tékklands í dag þar sem þeir taka þátt í evrópukeppninni. Það er því þétt spilað hjá þeim þessa dagana. "Þetta er mjög skemmtilegt og við æfum bara minna og spilum meira, það er flott." sagði Daði að lokum.

Smelltu hér til að opna Boltavaktina og lesa lýsingu leiksins: Þróttur - Fram

Leikurinn hefst klukkan 19.15. Á sama tíma hefst leikur Grindavíkur og Breiðabliks í Grindavík. Hægt er að fylgjast með báðum leikjunum samtímis á Miðstöð Boltavaktarinnar hér.

Þá er einnig hægt að nálgast Boltavaktina í Vodafone Live! farsímaþjónustunni.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×