Innlent

Kynferðisbrot á meðferðarheimili: Ekki hægt að reka nema ákært sé

Bragi Guðbrandsson
Bragi Guðbrandsson
Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu segir að séu starfsmenn meðferðarheimilis ákærðir fyrir kynferðisbrot sé þeim sagt upp störfum varanlega. Sjái ákæruvaldið hinsvegar ekki ástæðu til þess að gefa út ákæru séu menn í erfiðri stöðu og ekki hægt að reka viðkomandi. Rannsókn fer nú fram á meintum kynferðisbrotum starfsmanns meðferðarheimilis á Norðulandi en honum hefur verið sagt upp störfum tímabundið. Sami maður laut rannsókn vegna svipaðra brota fyrir ári síðan.

Morgunblaðið segir frá málinu í morgun en maðurinn er á fertugsaldri samkvæmt frétt Morgunblaðsins. Í samtali við fréttastofu segir Bragi að umræddur starfsmaður hafi verið látin fara tímabundið um leið og fyrra málið kom upp á sínum tíma.

„Það eru verklagsreglur hjá okkur að menn eru samstundis látnir víkja á meðan mál sem þessi eru til rannsóknar og það var gert í þessu tilfelli. Hinsvegar var málið látið niður falla af lögreglu og leiddi því ekki til ákæru. Þá eru menn í mjög erfiðri stöðu því það er jú grundvallarreglan í réttarkerfinu að hver maður er saklaus uns sekt er sönnuð," segir Bragi og á þá við fyrra málið sem kom upp fyrir um ári síðan.

Í því máli voru tvö börn vitni að umræddum brotum en framburður þeirra stangaðist á auk þess sem maðurinn neitaði allan tímann. Bragi segir að í málum sem þessum sé erfitt að reka menn þar sem það sé ígildi þess að menn séu sakfelldir. Maðurinn fékk því að koma aftur til starfa.

Rannsókn á seinna málinu er á frumstigi að sögn Braga en starfsmanninum hefur verið vikið frá tímabundið þar til annað kemur í ljós eins og fyrr segir.

Bragi segir að reglan sé einnig sú að ásaki barn starfsmann um slík brot sé alltaf kært til þess að fá fullkomna sakamálarannsókn í gang. Séu menn ákærðir séu þeir hinsvegar reknir varanlega.

„Með því telur ríkissaksóknari að meiri líkur en minni séu á því að sakfelling náist fram og það dugar okkur. Við setjum það ekki sem skilyrði að dómur falli en um leið og ákæra er gefin út þá víkjum við starfsmanni frá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×