Enski boltinn

Ferguson: Kjánalegt að hafna því að fara til Milan

Ferguson myndi sjálfur fara til Milan ef hann væri í sporum Beckham
Ferguson myndi sjálfur fara til Milan ef hann væri í sporum Beckham AFP

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segist eiga von á því að David Beckham gangi formlega í raðir AC Milan á næstunni.

Beckham spilaði í tíu ár undir stjórn Ferguson áður en hann fór til Spánar árið 2003, en hann er nú á lánssamningi hjá ítalska liðinu frá LA Galaxy í Bandaríkjunum.

Lánssamningur hins 33 ára Beckham nær til 9. mars en enski landsliðsmaðurinn hefur gefið það út að hann vilji vera áfram á Ítalíu þar sem hann hefur slegið rækilega í gegn undanfarið.

"Það væri ekki nema eðlilegt fyrir hann að snúa aftur í alvöruna. Þetta er gullið tækifæri fyrir hann og ég á von á að hann grípi það. Ég hugsa að hann fari til Milan ef félögin ná samkomulagi," sagði Ferguson í samtali við BBC.

Beckham var í fjögur ár hjá Real Madrid áður en hann tók þá áhugaverðu ákvörðun að semja við LA Galaxy fyrir áður óþekktar upphæðir þar í landi.

En eftir tvo ár með Galaxy virðist kappinn nú staðráðinn í að halda áfram hjá Milan og Ferguson er ekki á því að hann ætti að sleppa því tækifæri.

"Ef Milan gefur honum svona tækifæri, væri hann kjáni að taka því ekki. Hann er búinn að prófa að spila fyrir Galaxy og fá fullt af peningum og ætti því að sýna liðnu hollustu. En ég veit að ef ég fengi þetta tækifæri, myndi ég hugsa um sjálfan mig og stökkva á að spila fyrir Milan. Það er ekki möguleiki að hann geti gert það eftir tvö ár," sagði Ferguson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×