Innlent

Barnabarn hjónanna aðstoðaði Arnarnesræningjana

Tveir karlmenn sem rændu eldri hjón á Arnarnesi um helgina hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald fram í maí. Barnabarn hjónanna veitti ræningjunum upplýsingar sem leiddi til ránsins.

Alls hafa fimm verið handteknir vegna ránsins á Arnarnesi um helgina en það er eitt það alvarlegasta sem komið hefur á borð lögreglu í áraraðir.

Tveir menn brutust inn á heimili eldri hjóna grímuklæddir og vopnaðir og héldu heimilisfólki í gíslingu í um 20 mínútur. Annar mannanna veitti konunni þungt höfuðhögg með þeim afleiðingum að hún vankaðist. Eftir að hafa látið greipar sópa létu mennirnir sig hverfa en ekki fyrr en þeir höfðu skorið á símalínur og hótað hjónunum öllu illu hefðu þau samband við lögreglu.

Auk ræningjanna tveggja sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald í dag hafa þrjár konur verið handteknar grunaðar um aðild. Ein þeirra hefur játað en öllum þremur var sleppt í dag.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að barnabarn hjónanna á Arnarnesinu hafi gefið ræningjunum upplýsingar sem þeir notuðu við ránið.

Fréttastofa hefur einnig heimildir fyrir því að lögreglan hafi komist á slóð ræningjanna þegar þeir reyndu að selja hluta þýfisins, þar á meðal hringa sem þeir hrifsuðu af fingrum konunnar, í skartgripaverslun í borginni.






Tengdar fréttir

Fórnarlömb á Arnarnesi: Rólegri eftir handtökurnar

„Ég er ótrúlega hress miðað við það sem á hefur gengið," segir kona á áttræðisaldri sem varð fyrir óhugnalegri árás á heimili sínu við Mávanes um helgina þegar fjórir einstaklingar tóku hana og eiginmann hennar til fanga á heimili þeirra. Búið er að handtaka þá sem tengdust málinu og hefur lögreglan farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Íbúar í hverfinu eru óttaslegnir vegna fréttanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×