Innlent

Segir að svíkja eigi Leikfélagssamning

Góð aðsókn var á sýningar á árinu 
og reksturinn skilaði afgangi 
þrátt fyrir lækkað framlag 
frá Reykjavíkurborg.
Góð aðsókn var á sýningar á árinu og reksturinn skilaði afgangi þrátt fyrir lækkað framlag frá Reykjavíkurborg.
„Það stendur til að svíkja samninginn við Borgarleikhúsið,“ segir Dofri Hermannsson, fulltrúi Samfylkingar í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur.

Dofri vísar til samnings Leik­félags Reykjavíkur við Reykjavíkurborg um framlag til rekstursins í Borgarleikhúsinu. Í ljósi breyttra aðstæðna var í desember í fyrra gerð breyting á samningum þannig að framlag borgarinnar lækkaði á þessu ári um 50 milljónir frá því sem það ella yrði með verðbótum á árinu 2009. Með breytingunni varð framlagið í ár um 380 milljónir króna. Samningurinn gildir út 2012.

Af umræðum í menningarráði að dæma segir Dofri blasa við að Borgarleikhúsið fái ekki það fé sem um hafi verið samið. Skerðingin verði umtalsverð og komi sér afar illa því að í leikhúsinu hafi verið gerðar áætlanir og aðgangskort seld. Mikið beri á milli þess sem borgin ætli Borgarleikhúsinu og þess sem stjórnendur leikhússins telji að á þurfi að halda.

Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu, ítrekar að engin tillaga hafi borist um breytingar á samningum við Reykjavíkurborg. „Það er í gildi samningur milli Leikfélagsins og borgarinnar um starfsemina og sá samningur stendur. Það hefur engin tillaga komið um annað,“ segir Magnús sem kveður stöðugt og gott samband milli borgarinnar og leikfélagsins.

Aðspurður segir Magnús erfitt að segja til um hver áhrifin yrðu á leikhúsreksturinn ef umsamið framlag frá borginni skilar sér ekki. „En reksturinn er þröngur þrátt fyrir gott gengi þannig að Borgarleikhúsið má við mjög litlu,“ segir leikhússtjórinn.

Áslaug Friðriksdóttir, formaður menningar- og ferðamálaráðs, kveðst telja ótímabært að ræða þetta mál í fjölmiðlum. Engin ákvörðun hafi verið tekin. Ekki kom í ljós fyrr en 1. desember – þegar meirihlutinn í borgarstjórn hafi lagt fram fjárlagafrumvarp næsta árs – hvaða tillögur verða gerðar í þessum efnum.

„Það vita náttúrlega allir að við erum að hagræða,“ segir Áslaug. „Það er eðlilegt að við skoðum allar glufur og allt sem við getum gert. Það erum við að gera í góðu samráði við þau. Borgarleikhúsið veit hvað við erum að hugsa og er ekkert að kvarta undan því hvernig við erum að vinna þetta.“

Áslaug hafnar því að brjóta eigi samninginn. „Í fyrra var samningnum breytt í samvinnu við leikhúsið – það þurfti ekki að brjóta hann.“ gar@frettabladid.is
Dofri Hermannsson
Magnús Geir Þórðarson


Áslaug Friðriksdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×