Innlent

Varnarmálastofnun keypti dráttarvél án útboðs

Breki Logason skrifar
Varnarmálastofnun keypti dráttarvél á 15 milljónir króna í desember á síðasta ári, án undangengis útboðs. Utanríkisráðuneytið bað ríkisendurskoðun að kanna opinber innkaup stofnunarinnar.

Í bréfi ráðuneytisins voru fjögur atriði sérstaklega tiltekin. Auk kaupanna á dráttarvélinni var ríkisendurskoðun beðin að skoða kaup á símkerfi, og rafjöfnunarbúnaði.

Ráðuneytið taldi einnig vafa leika á því að samráð hafi verið haft um ráðningar nokkurra starfsmanna til stofnunarinnar.Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið hafi misskilið upplýsingar um ráðningarnar, og hefur ráðuneytið staðfest það.

Í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar varðandi dráttarvélina segir að rétt hefði verið og eðlilegt að að óska álits Ríkiskaupa á því hvort um sérlega góð kjör hafi verið að ræða. Fyrir liggur að dráttarvélin var keypt notuð á 15 milljónir króna en verð á nýrri vél af sömu gerð var talið 19,5 milljónir á þessum tíma.

Ríkisendurskoðun telur hinsvegar, með hliðsjón af hagstæðu verði dráttarvélarinnar, að bær yfirvöld hefðu komist að því að ekki hafi verð um útboðsskyldu að ræða þar sem verð hefði sannaranlega verið niðursett.

Samkvæmt upplýsingum frá Svanborgu Sigmarsdóttur, nýráðnum tímabundnum fjölmiðlafulltrúa Varnarmálastofnunar, er stór plógur framan á umræddri dráttarvél sem notuð er sem snjóruðningstæki á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi. Þar er staðsett ratsjárstöð sem erfitt er að komast að á veturna og reyndist dráttarvélin sérlega vel í vetur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×