Erlent

Aðdáendur Jacksons fjölmenntu við sjúkrahúsið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Mörg hundruð aðdáendur Michaels Jackson söfnuðust saman við UCLA-sjúkrahúsið þar sem poppstjarnan lést í gærkvöldi klukkan tæplega hálftíu að íslenskum tíma.

Jackson var 50 ára gamall og fékk hjartaáfall á heimili sínu. Hann var fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahúsið þar sem hann lést skömmu síðar, án þess að komast til meðvitundar. Jackson var fæddur árið 1958 og var aðeins 11 ára þegar hann vakti fyrst athygli með fjórum bræðrum sínum í hljómsveitinni Jackson Five. Hann hóf upp úr því eigin feril og vakti heimsathygli með plötunni Thriller árið 1982 en meðal annarra þekktra verka hans eru plöturnar Bad og Dangerous.

Jackson kvæntist Lisu Marie Presley árið 1994 en þau skildu tveimur árum síðar. Hann kvæntist nokkru eftir það hjúkrunarkonunni Debbie Rowe og átti með henni tvö börn áður en þau skildu árið 1999. Aðdáendur Jacksons og aðrir tónlistarmenn eru harmi slegnir, Madonna segist í viðtali við Telegraph ekki geta hætt að gráta og Britney Spears harmar fráfall hans einnig mjög, hún segist hafa hlakkað mjög til að sækja fyrirhugaða tónleika Jacksons í London. Meðal þeirra sem voru við dánarbeð hans voru Katherine, móðir hans, og La Toya systir hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×