Innlent

Tækjum var fjölgað á yfirfullri gjörgæslu

Auk svínaflensunnar hefur verið mikið um önnur alvarleg veikindi og slys sem hafa krafist innlagnar á gjörgæsludeild síðustu daga.fréttablaðið/gva
Auk svínaflensunnar hefur verið mikið um önnur alvarleg veikindi og slys sem hafa krafist innlagnar á gjörgæsludeild síðustu daga.fréttablaðið/gva

Gjörgæsludeildir Landspítala í Fossvogi og á Hringbraut fylltust aðfaranótt fimmtudags, þegar þar lágu níu sjúkl­ingar með svína­flensu, auk hinna sem þar voru af öðrum orsökum.

„Sjúklingar sem hefðu þurft að fara á gjörgæslu hefðu ekki komist inn,“ segir Már Kristjánsson, yfirmaður smitsjúkdómadeildar spítalans. Spurður um viðbrögð ef fleiri hefðu þurft að leggjast inn á gjörgæslu segir Már að í þeirri stöðu hefði þurft að kalla til starfsfólk af öðrum deildum spítalans eða starfsfólk sem var heima í hvíld.

„Við höfum þurft að bæta við töluverðum tækjabúnaði vegna flensunnar,“ segir Björn Zoëga, forstjóri spítalans. „Um er að ræða tvö gervilungu, svo og sprautudælur sem dæla lyfjum í gjörgæslusjúklinga. Einnig höfum við skoðað skilvindu fyrir fólk sem lendir í nýrnabilun sem fylgir oft svona sjúkdómum.“

Á Landspítala lágu 35 um hádegi í gær, þar af átta á gjörgæslu. Það var heldur færra en á miðvikudag, því þá voru 39 inflúensusjúklingar inniliggjandi, þar af níu á gjörgæsludeild. Tólf voru lagðir inn á einum sólarhring en tveir voru útskrifaðir á sama tíma. Meira reyndi á miðvikudag á starfsemi Landspítala vegna inflúensunnar en nokkru sinni frá því faraldurinn hófst.

Vegna þessarar stöðu var viðbúnaður á Landspítala í gær færður á svokallað virkjunarstig, samkvæmt viðbragðsáætlun spítalans. Þetta er næstefsta stig af fjórum sem skilgreind eru í áætluninni. Efst er neyðarstig. Á virkjunarstigi viðbúnaðar gæti þurft að draga úr innlögnum sjúklinga og fresta þeim aðgerðum sem unnt er að fresta á Landspítalanum.

Alls hafa 6.609 manns greinst með inflúensueinkenni hérlendis. Frá 23. september hafa yfir hundrað manns verið lagðir inn á sjúkrahús hér vegna inflúensu, þar af tæplega níutíu manns á Landspítala. Af þeim eru þrír af hverjum fjórum með undirliggjandi sjúkdóma.

Frá októberbyrjun hafa fjórtán sjúklingar verið lagðir inn á gjörgæsludeildir með staðfesta inflúensu eða grun um hana. Síðdegis í gær voru alls níu á gjörgæsludeildum, þar af einn á Akureyri og átta á Landspítala, eins og áður sagði.jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×