Lífið

Fljúgandi ráðherrar

Sigrún Jónsdóttir hyggst ekki bjóða sig fram til forsætisráðherra þrátt fyrir góðan bakgrunn.
Sigrún Jónsdóttir hyggst ekki bjóða sig fram til forsætisráðherra þrátt fyrir góðan bakgrunn.

„Ég veit ekki hvort starfið sé góður stökkpallur í pólitík en reynslan nýtist greinilega á fjölbreyttum vettvangi," segir Sigrún Jónsdóttir, forstýra Flugfreyjufélags Íslands, en sú einstaka staða hefur komið upp að það eru ekki bara ein, heldur tvær flugfreyjur sem gegna embætti ráðherra í nýstofnaðari ríkisstjórn.

Það eru þær Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra sem störfuðu áður sem flugfreyjur.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra. MYND/Fréttablaðið.

Fljótar að taka ákvarðanir

„Maður þarf að hugsa hratt og vera fljótur að taka ákvarðanir, síðan er maður mikið í mannlegum samskiptum í gegnum starfið," segir Sigrún þegar hún lýsir fjölbreyttu starfi flugfreyjunnar sem virðist hafa gagnast Jóhönnu og Ástu Ragnheiði vel í gegnum tíðina.

Jóhanna var vinsælasti ráðherra síðustu ríkisstjórnar en Sigrún segir að eitt af því sem einkennir flugfreyjur sé að leysa farsællega úr aðstæðum, og það í mörg þúsund feta hæð.

Stjórnmálalega þenkjandi flugfreyjur

Jóhanna var orðinn nokkuð stjórnmálalega þenkjandi á meðan hún starfaði sem flugfreyja því að sögn Sigrúnar gengdi Jóhanna formannsembætti Flugfreyjufélagsins árið 1966. En þess má einnig geta að það er fæðingarár Sigrúnar.

Aðspurð segir Sigrún að hún hafi sjálf ekki hug á því að fara á þing þrátt fyrir góðan bakgrunn en hún segir það ekki letjandi fyrir þær konur sem leggja fyrir sig flugfreyjuna að vita til þess að tveir ráðherrar hafi gengt sama starfi.

Sjálf segist Sigrún ekki vita til þess með fullri vissu hvort flugfreyjur gegni viðalíku embætti í ríkisstjórnum erlendis. Eftir lauslega athugun þá er ekki annað hægt að sjá en að Ísland sé eina ríkið sem státi af jafn mörgum fljúgandi ráðherrum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.