Innlent

Sáttasemjari milli Ölfuss og Reykjanesbæjar

Kjartan Ólafsson alþingismaður hefur ákveðið að gerast sáttasemjari í viðræðum sveitarfélagsins Ölfuss og Reykjanessbæjar til að höggva á þann hnút sem upp er kominn eftir að bæjarstjórn Ölfuss ákvað að koma í veg fyrir orkuflutninga frá Hellisheiði til Suðurnesja.

Kjartan Ólafsson ræddi í morgun við bæjarstjóra Ölfuss og Reykjanesbæjar um að ráðmenn sveitarfélaganna kæmu saman til sáttafundar og er nú stefnt að því að fá orkufyrirtækin og Landsnet einnig að viðræðum sem fyrst.

Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi en eins og fram kom á Stöð 2 í gærkvöldi hefur bæjarstjórn Ölfuss samþykkt að leggjast gegn því að ný háspennulína verði lögð frá Hellisheiðarvirkjun til Suðurnesja. Þar sem leyfi sveitarstjórnar þarf fyrir framkvæmdinni þýðir þetta að öll áform um orkufrekan iðnað á Suðurnesjum eru í uppnámi, þar á meðal um álver og sólarkísilverksmiðju í Helguvík, og um netþjónabú á Vallarsvæðinu.

Þessi afstaða Ölfusinga vakti hörð viðbrögð framámanna á Suðurnesjum í morgun og Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði í samtali við Víkurfréttir að tíðindin hefðu komið illa við menn þar.

Ölfusingar eru ekkert að leyna því að þeir nota þetta sem þrýstiaðgerð til að knýja á um atvinnuppbyggingu hjá sér og þeir kæri sig ekki um að sjá raforkuna nýtast eingöngu til uppbyggingar á öðrum svæðum. Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri Ölfuss, kvaðst nú síðdegis vonast til að hægt yrði að leysa málið farsællega. Hann sagði 700 megavött að verða til á Suðurlandi og það hlyti að vera hægt að finna leiðir til að miðla þeirri orku þannig að allir yrðu sáttir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×