Lífið

Fyrsti þáttur Hringfaranna á netið í dag

Bandaríska Sopranos stjarnan Steve Schirripa fer með hlutverk í þáttunum.
Bandaríska Sopranos stjarnan Steve Schirripa fer með hlutverk í þáttunum.

Þættirnir Hringfararnir, eða Circledrawers í leikstjórn Ólafs Jóhannessonar hefja göngu sína í dag, 1. maí á veraldarvefnum. Um er að ræða fyrstu íslensku vefþáttaseríuna sem frumsýnd er á internetinu, öllum opið til áhorfs. Í tilkynningu frá framleiðanda kemur fram að þættirnir eru níu talsins og eru þeir frumsýndir með viku millibili og eru sniðnir að bandarískri fyrirmynd um vefþætti.

Hægt er að sjá þættina á margmiðlunarsíðunum Blip.TV, YouTube.com, Hulu sem og í gegnum forritið iTunes ásamt um 50 öðrum vefmiðlum víðsvegar um heiminn.

Einnig er boðið upp á að kaupa þáttaseríuna í heild sinni á opinberri heimasíðu þáttanna http://www.circledrawers.com.

„Þetta er ákveðin tilraun, að kynna þennan englaheim á þennan máta. Að sjá hvort fólki hafi áhuga á efninu og hvort það sé ástæða til að halda áfram að þróa verkefnið. Þetta er alþjóðlegt efni í léttum dúr sem verður forvitnilegt að sjá hvernig það spjarar sig á sólaströndum internetsins." segir Ólafur, annar skapari og leikstjóri þáttanna.

Hringfararnir segir frá hópi engla sem kallast Hringfarar sem eru neðstir í fæðukeðju englastéttarinnar. Verkefni þeirra getur verið allt frá því að blómapottur detti niður á rétta manneskju eða að hjálpa fólki yfir landamæri lífs og dauða. Draumur hvers Hringfara er að ná að klára lista af verkefnum áður en þeir deyja svo þeir geti fengið verðlaunin, að fæðast sem manneskja. Þetta er nær ómögulegt þar sem englaheimurinn er hægvirkur eins og skattstofa full af klaufaskap og seinagangi.

Það er Sopranos leikarinn Steve Schirripa sem hefur verið andlit þáttanna í kynningu þeirra á netinu, en hann fer með hlutverk í þáttunum. Í helstu hlutverkum eru Hilmir Snær Guðnason, Logan Huffman, Benedikt Erlingsson, Stefan Schaefer, Steve Schirripa, Jóhann G. Jóhannsson, Sharon Angela, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Örn Árnason.

Ólafur Jóhannesson leikstýrir eftir handriti þeirra Stefans Schaefers. Áður unnu þeir að handriti Stóra plansins sem Ólafur leikstýrði. Ólafur er einnig leikstjóri kvikmyndanna The Truth About Queen Raquela og Africa United. Þættirnir eru framleiddir af Poppoli kvikmyndafélaginu í samstarfi við Cicala Filmworks, og eru teknir upp á Íslandi og í New York.

Hér má sjá fyrsta þáttinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.