Enski boltinn

Wenger: United virðist ósnertanlegt

AFP

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segist reikna með því að eitthvað mjög sérstakt þurfi að koma til svo Manchester United vinni ekki enska meistaratitilinn í ár.

Wenger veit allt um það hvernig er að vera með ósigrandi lið í höndunum eftir að hafa leitt lið sitt taplaust til meistaratignar árið 2004.

United hefur reyndar aðeins tveggja stiga forskot á toppi deildarinnar, en liðið á leik til góða á móti Fulham og hefur verið á fínu skriði síðustu vikur.

Wenger neitar að útiloka að hans menn eigi möguleika á titlinum, en segir fátt geta komið í veg fyrir að United vinni deildina enn einu sinni.

"Við erum á ágætu róli núna og ætlum ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Í augnablikinu virðist Manchester United hinsvegar vera ósnertanlegt. Liðið hefur tólf stiga forskot á okkur og verður fimmtán stig ef liðið vinnur Fulham eins og flest bendir til. Ef við gefum okkur að United tapi fyrir okkur, þarf liðið samt að tapa fjórum leikjum svo við getum náð því að stigum," sagði Wenger.

Hann er með sín markmið á hreinu fyrir tímabilið, sem hefur verið upp og niður hjá Arsenal.

"Okkar helsta markmið er að vinna okkur sæti í Meistaradeildinni og því er deildarkeppnin okkar forgangsatriði," sagði Frakkinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×