Innlent

Orkuskattur nái ekki út á land

Jón Bjarnason vill standa vörð um atvinnulífið á landsbyggðinni.
Jón Bjarnason vill standa vörð um atvinnulífið á landsbyggðinni.

Jón Bjarnason, sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra, vill að áformaður orku-, umhverfis- og auðlindaskattur leggist ekki á fyrirtæki á landsbyggðinni. Slíkir skattar hafi enda slæm áhrif.

Jón upplýsti um þessa skoðun sína á Alþingi í gær.

Einar K. Guðfinnsson Sjálfstæðisflokki innti Jón eftir afstöðu hans til málsins.

Jón svaraði því til að hann hefði við kynningu málsins í ríkis­stjórn lagt áherslu á að horft yrði til þess að þetta íþyngdi ekki atvinnulífi og byggðum á landsbyggðinni þar sem áhrif af sértækum sköttum kynnu að hafa margföld áhrif.

Hitt væri annað mál að stjórnin stæði frammi fyrir gati á fjárlögum sem væri afleiðing stjórnar­stefnu Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratug. Ekki væri sársaukalaust að leysa úr þeim málum. „En ég vil standa vörð um atvinnulífið á landsbyggðinni og að þar njóti menn jafnræðis,“ sagði Jón að lokum.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að nýr orku-, umhverfis- og auðlindaskattur afli ríkissjóði allt að sextán milljarða króna á næsta ári. Eftir er að útfæra hugmyndina.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×