Erlent

NASA undirbýr næstu kynslóð geimflauga

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Frumgerð Ares-flaugarinnar á skotpalli (lengt til hægri).
Frumgerð Ares-flaugarinnar á skotpalli (lengt til hægri). MYND/NASA

Bandaríska geimferðastofnunin NASA undirbýr nú fyrsta tilraunaskot hinnar nýju Ares 1-X-geimflaugar.

Þessi frumgerð verður ómönnuð í tilraunaskotinu en ekki í framtíðinni gangi allt saman vel því þarna er kominn arftaki geimskutluflota NASA en því sem eftir er af honum verður lagt endanlega á næsta ári. Skutlurnar eru komnar af léttasta skeiði og rúmlega það en sú fyrsta fór upphaflega í loftið 12. apríl 1981. Þá settu tvö mannskæð slys óneitanlega mark sitt á geimskutluáætlun NASA þegar Challenger og Columbia fórust árin 1986 og 2003.

Nýja Ares-flaugin er 100 metra há og verður henni skotið upp í 40 kílómetra hæð í lok mánaðarins. Hún verður tvö þrep og losnar fyrra þrepið frá þegar eldsneyti þess er uppurið og svífur til jarðar í fallhlíf. Nýja geimferðaáætlunin ber heitið Constellation, eða stjörnuþyrping, og mun í fyrstu telja tvær flaugar, Ares 1 og Ares 5, en hin síðarnefnda verður flutningaflaug sem flogið getur með mikið magn vista og búnaðar til mannaðra geimstöðva framtíðarinnar.

Ekki er þó gert ráð fyrir að NASA sendi neina geimfara á loft með nýju flaugunum næstu fimm árin á meðan ítarlegar tilraunir fara fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×