Innlent

Fleiri skemmtiferðaskip í sumar á landsbyggðina

Komum skemmtiferðaskipa til hafna á landsbyggðinni fjölgar umtalsvert í sumar. Þannig hafa yfir sextíu skip boðað komu sína til Akureyrar og um þrjátíu til Ísafjarðar.

Flest skipin koma að venju til Reykjavíkur, um áttatíu talsins, sem er svipað og í fyrra, en með þeim verða um sextíu þúsund farþegar. Það sem vekur athygli í ár er að skipin ætla að stöðva oftar og víðar í öðrum höfnum landsins. Þannig verður nærri helmingsaukning skemmtiferðaskipa á Ísafirði í sumar, úr 20 í 29, og til Seyðisfjarðar er búist við 17 skipum í ár, miðað við 8 í fyrra, og er þá Norræna ekki talin með.

Og hér sjáum við hafnirnar sem fá skemmtiferðaskip í sumar, og fjölda skipa. Þannig er von á tíu skipum til Keflavíkur, tólf skipum til Grundarfjarðar, 61 til Akureyrar, tveimur til Húsavíkur, fimmtán til Vestmannaeyja og þrjú skip áætla að leggjast inn á Djúpavog. Ágúst Ágústsson, formaður Cruise Iceland-samtakanna og markaðsstjóri Faxaflóahafna, kann enga skýringu á þessum aukna áhuga á landsbyggðinni, aðra en þá að staðirnir séu orðnir vel kynntir.

Kannanir sýna að um 80 prósent farþega kaupa sér skoðunarferðir í landi og hafnasjóðir bæjarfélöganna fá miklar tekjur af þessum risaskipum. Þannig segir Ágúast að nú sé svo komið að nærri fjórðungur tekna hafna Ísafjarðar og Akureyrar komi frá skemmtiferðaskipum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×