Innlent

Eftirlýstur mansalsmaður gaf sig fram

Helga Arnardóttir skrifar

Einn lithái af þremur sem lögreglan á Suðurnesja lýsti eftir í dag vegna meints mansalsmáls sem nú er til rannsóknar hefur gefið sig fram við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Lýst er eftir tveimur litháum sem einnig eru taldir tengjast málinu.

Lögreglan á suðurnesjum sendi frá sér tilkynningu síðdegis og lýsti eftir þremur mönnum sem allir eru taldir tengjast máli litháískrar konu sem er í vörslu lögreglunnar og talin er fórnarlamb mansals. Þessi maður gaf sig fram við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu nú rétt fyrir fréttir og verður hann yfirheyrður í kvöld.







Þessi Lithái gaf sig fram síðdegis.

Lögreglan hins vegar leitar enn þessa manns en nafn hans er ekki vitað. Einn mannanna er búsettur hér á landi. Ekki er til mynd af þriðja manninum sem lýst er eftir en hann heitir Davidas Sarapinas og er 26 ára lithái.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir staðgengill lögreglustjóra vill ekki greina frá hvernig mennirnir þrír tengjast málinu vegna rannsóknarhagsmuna. Hún segir rannsókn standa sem hæst og reynt hafi verið að hafa upp á mönnunum með öllum tiltækum leiðum en án árangurs.

Lögreglan hefur nú þrjá litháa í gæsluvarðhaldi á litla hrauni sem var framlengt í héraðsdómi Reykjaness í gær til næsta miðvikudags. Þeir hafa allir neitað sök en Alda segir að lögreglan standi enn við fyrri yfirlýsingar um að sterkur grunur leiki á mansali.

Konan sjálf sem kom í leitirnar í fyrradag er í öruggum höndum og er líðan hennar sögð góð. Ekki er enn vitað hver konan er en unnið er að því hörðum höndum. Staðfest hefur verið að skilríki hennar hafi verið fölsuð og að hún hafi ekki keypt farseðilinn til landsins sjálf.




Tengdar fréttir

Lýst eftir mansalsmönnum

Lögreglan á Suðurnesjum óskar eftir upplýsingum um mennina á meðfylgjandi myndum en myndirnar tengjast rannsókn á ætluðu mansali. Þeir sem telja sig þekkja mennina eða geta gefið einhverjar upplýsingar um þá eru beðnir að hafa samband við Lögregluna á Suðurnesjum, s. 420 1700, eða við næstu lögreglustöð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×