Erlent

Breskt þjóðfélag lamað vegna fannfergis

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Telegraph

Breskt þjóðfélag hefur nánast verið í kyrrstöðu vegna fannfergis og kulda síðustu daga. Í fyrsta sinn í manna minnum lágu allar strætisvagnasamgöngur í London niðri í gær en snjóþekja í borginni var tæpir 30 sentimetrar.

Víða komust lestir heldur ekki spönn frá rassi svo ástandið var býsna óþægilegt fyrir marga. Fella þurfti niður kennslu í 4.000 skólum og um fimmtungur vinnandi fólks var veðurteppt heima hjá sér en kostnaður vinnuveitenda vegna þeirra fjarvista nemur 1,2 milljörðum punda. Þá lá flugumferð að mestu leyti niðri í allan gærdag, sumir flugvellir voru þó opnir hluta úr degi en það nægði engan veginn til að halda uppi hefðbundnum flugsamgöngum.

Vél kýpverska flugfélagsins Cyprus Air rann út af flugbraut á Heathrow-flugvelli í hálku en engan sakaði þó. Samgönguyfirvöld í Bretlandi eru gagnrýnd harðlega fyrir að búa sig nánast ekkert undir mesta fannfergi í áratugi sem veðurfræðingar höfðu þó varað við í fimm daga samfleytt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×