Enski boltinn

Van der Sar í sögubækurnar er United vann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Edwin van der Sar bætti enn eitt metið í dag.
Edwin van der Sar bætti enn eitt metið í dag. Nordic Photos / Getty Images
Edwin van der Sar hefur skráð nafn sitt í sögubækurnar eftir að Manchester United vann 1-0 sigur á Everton í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Van der Sar, markvörður United, bætti met Steve Death, fyrrum markvarðar Reading, er 73. mínúta leiksins rann upp því þá hafði hann haldið marki United hreinu í 1104 mínútur og þar með bætt met Death.

Cristiano Ronaldo skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks.

Tim Cahill og Marouane Fallaini voru báðir í byrjunarliði Everton en þeir voru tæpir fyrir leikinn. Það voru því engar breytingar gerðar á liðinu sem gerði jafntefli við Arsenal í vikunni.

Ein breyting var gerð á liði United sem vann 5-0 sigur á West Brom en Darren Fletcher kom inn fyrir Ryan Giggs sem fór á bekkinn.

Það má svo geta þess að þeir Neville-bræður voru báðir fyrirliðar í dag - Gary hjá United og Phil hjá Everton en þeir eru vitanlega fyrrum samherjar hjá United. Faðir þeirra, sem heitir því skemmtilega nafni Neville Neville, er því væntanlega sérstaklega stoltur af drengjunum sínum í dag.

United byrjaði betur í leiknum en fyrrum markvörður liðsins, Tim Howard, var vel á verði og hélt stöðunni markalausri lengi vel.

Það er að segja þar til að Mikel Arteta var dæmdur brotlegur eftir viðskipti sín við Michael Carrick rétt innan vítateigslínunnar. Vítaspyrna dæmd og skoraði Ronaldo úr henni með því að skjóta á mitt markið á meðan að Howard stakk sér í hægra hornið.

Það var lítið um hættuleg færi í síðari hálfleik en þó var sigur United í raun aldrei í hættu.

Death setti metið tímabilið 1978-9 og stóð það óhaggað í ensku deildakeppninni allt þar til í dag.

Næst getur van der Sar slegið met Chris Woods sem hélt marki Glasgow Rangers hreinu í 1196 mínútur tímabilið 1986-7 en það er breska metið í þessum efnum.


Tengdar fréttir

Stoke vann Man City manni færri

Stoke gerði sér lítið fyrir og vann 1-0 sigur á Manchester City þó svo að Rory Delap hafi fengið að líta rauða spjaldið snemma leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×