Lífið

William Shatner rekur Bandaríkjamenn í frí

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Shatner vígalegur í hlutverki samningamannsins.
Shatner vígalegur í hlutverki samningamannsins. MYND/Priceline

Gamla Star Trek-brýnið William Shatner berst nú af alefli fyrir lífi bandarískrar ferðaþjónustu sem auglýsingapersóna Priceline-ferðaskrifstofunnar.

Það er engin lognmolla í kringum leikarann gamla sem nú vantar ekki nema þrjú ár í áttrætt. William Shatner þekkja lífsreyndari sjónvarpsnotendur betur sem kaftein James T. Kirk á geimfleyinu Enterprise sem ásamt harðskeyttri áhöfn sinni gerði Klingónum og fleiri útgeimaþjóðflokkum lífið leitt. Nú þjónar Shatner bandarísku ferðaskrifstofunni Priceline.com og glímir við þá ofurþraut að koma Bandaríkjamönnum í frí.

Þetta er hægar sagt en gert þegar þjóðin horfir framan í eina skæðustu efnahagsgrýlu sem sést hefur til nánast síðan Shatner sjálfur kom í heiminn. Á sjónvarpsskjá 21. aldarinnar kallast hann Priceline-samningamaðurinn og er söguþráður auglýsinganna á þann veg að Shatner ryðst grár fyrir járnum inn á heimili og vinnustaði og hótar öllu illu bóki skelfingu lostin fórnarlömbin ekki þegar í stað ferð í draumafríið á síðu Priceline. Shatner segir að samningamaðurinn sé fæddur af nauðsyn og nærist á ótta, óttanum við kreppuhjal og svartsýni.

Hann segir Bandaríkjamenn eiga það á hættu að draga seglin svo mikið saman að allt hrynji hreinlega til grunna. Þetta gangi auðvitað ekki og því þurfi blankir Bandaríkjamenn að draga úr svartsýninni og skella sér í frí með Priceline til að gera lífið skemmtilegra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.