Lífið

Systkini hjóla með ferðamenn

Páll Pálsson hjólar með fólk um miðbæ Reykjavíkur.  Fréttablaðið/rósa
Páll Pálsson hjólar með fólk um miðbæ Reykjavíkur. Fréttablaðið/rósa

Systkinin Sólveig og Páll Pálsbörn munu í sumar bjóða ferðamönnum, erlendum jafnt sem íslenskum, upp á ókeypis hjólaferðir um miðbæ Reykjavíkur. Verkefnið, sem hlotið hefur nafngiftina Crymoguide, er unnið í samstarfi við skapandi sumarstörf Hins hússins.

„Hugmyndin er að kynna fyrir fólki sögu miðbæjarins á annan hátt en hefur tíðkast hingað til. Við fengum að láni Nova-hjólið og ætlar bróðir minn að hjóla með ferðamenn um miðbæinn og fræða þá um Ásmundarsafn, Hljómskálagarðinn og fleiri þekkta staði. Páll er útskrifaður leiðsögumaður og er vel að sér í sögu þessara staða," segir Sólveig en þau systkinin eru fædd og uppalin í Þingholtunum og þekkja svæðið vel. Aðspurð segir hún nafnið vera tilvísun í rit Arngríms lærða Jónssonar, Crymogæa, sem hann skrifaði sem svar við neikvæðri umfjöllun um Ísland.

„Tilgangur Crymoguide er svipaður, við munum leggja áherslu á fegurð og sögu miðbæjarins og sýna hann í jákvæðu ljósi. Ferðamátinn er líka svolítið rómantískur og gefur ferðamanninum aðra og nálægari sýn á bæinn en þegar ferðast er með rútu." Upphafspunktur ferðanna er við Hallgrímskirkju og lýkur þeim við Austurvöll. Hver ferð tekur um tuttugu mínútur og er hægt að fá leiðsögn á ensku, spænsku og íslensku. „Það komast tveir í vagninn og við byrjum á fjórum til fimm ferðum á dag á meðan Páll byggir upp þol," segir Sólveig sem hvetur fólk eindregið til að nýta sér ferðirnar og kynnast miðbænum betur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.