Erlent

Klám í Hvíta húsinu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hvíta húsið - kannski ekki svo hvítt eftir allt saman.
Hvíta húsið - kannski ekki svo hvítt eftir allt saman.

Blaðamenn sem ætluðu sér að hringja í Hvíta húsið í gær og taka þátt í blaðamannafundi með Hillary Clinton utanríkisráðherra og þjóðaröryggisráðgjafanum Jim Jones fengu allt önnur svör en þeir áttu von á.

Munúðarfull rödd spurði þá hvort þeir ættu sér einhverja leynda óra og ef svo væri hefðu þeir hringt á réttan stað. Glöggir menn áttuðu sig fljótlega á því að það væri ekki utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem gæfi þessi fyrirheit heldur hefðu þeir náð sambandi við símakynlífsþjónustu sem ætti ekki rætur sínar að rekja til Hvíta hússins.

Fljótlega kom í ljós að starfsmaðurinn sem sá um að kynna blaðamannafundinn í tölvupósti hafði gert innsláttarvillu og birt allt annað númer en efni stóðu til. Mistök á borð við þessi eru svo sem ekki ný af nálinni. Bandarískur almenningur, sem ætlaði að fá samband við upplýsingamiðstöð ríkisstjórnar George Bush um vanskil húsnæðislána, hringdi í trúfélag í Texas eftir að Bush mismælti sig lítillega þegar hann þuldi símanúmerið upp á blaðamannafundi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×