Lífið

Átta þúsund mótmæla ákvörðun RÚV

Þórhallur Gunnars­son, dagskrárstjóri RÚV, og Páll Magnússon sjónvarpsstjóri eru ekki vinsælustu mennirnir í framhaldsskólum landsins eftir að RÚV ákvað að skera niður útsendingu frá Söngkeppni framhaldsskólanna.
Þórhallur Gunnars­son, dagskrárstjóri RÚV, og Páll Magnússon sjónvarpsstjóri eru ekki vinsælustu mennirnir í framhaldsskólum landsins eftir að RÚV ákvað að skera niður útsendingu frá Söngkeppni framhaldsskólanna.

„Ég hef fullan skilning á þeirra reiði en ég vona líka að þeir sýni okkar aðstæðum skilning. Við vissum það, þegar ráðist var í þennan niðurskurð, að þetta myndi lenda á einhverjum og því miður bitnar þetta á þeim núna," segir Páll Magnússon útvarpstjóri. Honum þykir miður að geta ekki sýnt beint frá Söngkeppni framhaldsskólanna en bætir því við að menntskælingar séu ekki þeir einu sem þurfi að horfa á eftir uppáhaldi sínu.

„Íþróttahreyfingin hefur líka orðið fyrir barðinu á þessum niðurskurði enda höfum við þurft að draga mikið úr dýrum, beinum útsendingum."

Ekki hafði enn verið ákveðið hvort söngkeppnin verður tekin upp þegar Fréttablaðið hafði samband við Þórhall Gunnarsson, dagskrárstjóra RÚV.

Tæplega átta þúsund hafa skráð sig á Facebook-síðuna þar sem skorað er á RÚV að sýna beint frá Söngkeppni framhaldsskólanna. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra framhaldsskólanema, Ásgeir Guðmundsson, skrifaði menntamálaráðherra meðal annars bréf þar sem hann hvatti hana til að leggja sitt á vogarskálarnar og fá þessari ákvörðun breytt.

„Ég trúi því að þú látir ekki við sitja, talir máli unga fólksins og komir Söngkeppni framhaldsskólanna í sjónvarpið á ný. Valdið er nú loksins í þínum höndum þó mögulega óbeint í þessu tilviki en varla situr þú hjá og þegir," skrifar Ásgeir í bréfi sem einnig var sent á fjölmiðla.

Fjölmargir hafa lýst yfir óánægju sinni í athugasemdakerfi Facebook-síðunnar. „Ég er löngu búin með framhaldsskólann en er alveg sammála um að þessi keppni eigi að vera á RÚV - nóg er fyrir eldri kynslóðina. Skemmtileg keppni sem ég horfi alltaf á," skrifar Elísabet Guðjónsdóttir á Facebook-síðuna í gær.- fgg










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.