Innlent

Yfirlæknirinn í Fjarðabyggð ekki ákærður - forstjóri HSA undrandi

Breki Logason skrifar
Einar Rafn Haraldsson forstjóri HSA.
Einar Rafn Haraldsson forstjóri HSA.
Mál Hannesar Sigmarssonar yfirlæknis við Heilsugæslu Fjarðabyggðar hefur verið látið niður falla. Hannesi var vikið frá störfum tímabundið þann 12. febrúar og í gang fór rannsókn á vinnulagi Hannesar og meintum fjárdrætti. Það var Ríkisendurskoðun sem rak málið en Hannes fékk bréf þess efnis í morgun að málið hefði verið látið niður falla. Hannes segist þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið og býst við að snúa aftur til starfa sem fyrst. Niðurstaðan kemur forstjóra HSA á óvart.

„Ég átti nú von á þessu og því kemur þetta ekkert svakalega á óvart," segir Hannes í samtali við fréttastofu en í umræddu bréfi kom fram að ekki væri ástæða til þess að halda rannsókn áfram og málið því látið niður falla.

Íbúar Fjarðabyggðar hafa sýnt Hannesi mikinn stuðning á meðan rannsókn hefur staðið og vill hann þakka öllu þessu fólki fyrir stuðninginn. „Sá stuðningur sem mér og fjölskyldu minni hefur verið sýndur hér á Austurlandi og víðar er alveg ómetanlegur," segir Hannes sem að öðru leyti vildi lítið tjá sig um málið.

Einar Rafn Haraldsson forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Austurlands (HSA) segist ekki hafa fengið neina formlega tilkynningu um að málið hafi verið látið niður falla en hafði heyrt af þessu þegar Vísir náði af honum tali.

„Þetta kemur mér verulega á óvart. Ég hef undir höndum skýrslu frá Ríkisendurskoðun þar sem fjallað er um á þriðja tug ákæruatriða en ég veit ekki hversvegna málið var látið niður falla," segir Einar Rafn.

Málið hefur vakið nokkra athygli eins og fyrr segir og Hannes virðist njóta mikilla vinsælda í sinni heimabyggð. Einar segir það eiga sínar skýringar sem séu efnislega á þá leið að Hannes hafi sinnt sínum sjúklingum vel og verið fljótur til. Skiljanlega sé fólk ánægt með slíka þjónustu en stofnunin hafi ekki verið eins ánægð með hvernig hann hafi rukkað fyrir þá vinnu.

Aðspurður hvort Hannes snúi nú aftur til starfa segist Einar ekki getað tjáð sig um það þar sem hann viti ekki hvað felist í niðurstöðunni.

„En ég geri mér í hugarlund að lögreglan hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau gögn sem liggi fyrir muni ekki leiða til ákæru í málinu. Þetta er hinsvegar bara einn hluti af málinu sem snýr að meintum fjárdrætti. Hitt snýr að störfum hans fyrir stofnunina og þau mál eru enn ókláruð."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×