Innlent

Nær öllum sagt upp á Baldri

Pétur Ágústsson framkvæmdastjóri Baldurs segir menn slegna yfir tíðindum um versnandi samgöngur um Breiðafjörð og Barðaströnd.
Pétur Ágústsson framkvæmdastjóri Baldurs segir menn slegna yfir tíðindum um versnandi samgöngur um Breiðafjörð og Barðaströnd.

Tólf af sextán starfsmönnum Sæferða var í gær sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara. „Okkur hefur verið sagt að ferðum verði fækkað um áramótin. Þótt við vitum reyndar ekki enn hversu mikið þá getum við ekki haldið óbreyttum starfsmannafjölda. Það ræðst af því hversu mikið af ferðunum verður skorið niður hversu margir verða endurráðnir," segir Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða, sem gera út Breiðafjarðarferjuna Baldur.

Pétur segir að samkvæmt fjögurra ára samningi sem renni út um næstu áramót hafi Sæferðir fengið tæplega 100 milljónir króna frá ríkinu til að halda uppi vetraráætlun Baldurs milli Stykkishólms og Brjánslæks. Fram til þessa hafi verið farin ein ferð á dag yfir vetrartímann. Því sé ljóst að verði ferðum fækkað þá falli einhverjir dagar út. Þjónustan muni þannig stórskerðast.

„Menn eru mjög slegnir yfir því að þetta skuli vera að gerast því á sama tíma er verið að draga úr bæði snjómokstri og hálkuvörnum á veginum um Barðaströnd. Þetta er gríðarlegt atriði fyrir atvinnulífið því á veturna erum við að flytja um 90 prósent af öllum þungaflutningum á Suðurfirðina," segir Pétur Ágústsson. - gar








Fleiri fréttir

Sjá meira


×