Fótbolti

Jóhann Berg: Feginn að þessu sé loksins að ljúka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Berg í leik með íslenska landsliðinu.
Jóhann Berg í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Daníel
Jóhann Berg Guðmundsson mun á morgun semja við hollenska úrvalsdeildarfélagið AZ Alkmaar ef allt gengur að óskum. Að baki er langt og strangt ferli.

Jóhann hefur verið á leiðinni í atvinnumennskuna allt frá því að tímabilinu lauk í haust og hefur síðan þá æft bæði með HSV í Þýskalandi og Coventry í Englandi sem hann var sterklega orðaður við á sínum tíma.

Ekkert varð úr þeim félagaskiptum en nú hefur Breiðablik loksins náð samkomulagi um kaupverð við erlent félag - AZ Alkmaar frá Hollandi.

Jóhann Berg mun halda utan á morgun til þess að fara í læknisskoðun og skrifa undir þriggja ára samning sem hægt er að framlengja um tvö ár í viðbót.

„Mér líður ansi vel að þetta sé loksins að verða búið. Þetta er búið að vera ansi langt ferli sem hefur auðvitað tekið á. Ég hef hins vegar reynt að vera rólegur enda hef ég alltaf haft það á tilfinningunni að þetta myndi klárast áður en félagaskiptaglugginn lokar um mánaðamótin."

Hann er ánægður með að fara til Hollands og sér ekki eftir því að hafa samið við annað hvort HSV eða Coventry.

„Þetta var besti klúbburinn af þessum þremur fyrir mig að mínu mati," sagði Jóhann Berg.

Kolbeinn Sigþórsson er á mála hjá AZ Alkmaar en þeir eru jafnaldrar og báðir úr Kópavoginum.

„Við vorum saman á leikskóla á sínum tíma þar sem við spörkuðum saman í bolta og því gaman að við skulum lenda í sama félaginu í Hollandi," sagði Jóhann í léttum dúr.

Hann mun fyrst um sinn æfa með varaliði félagsins en ætlar sér svo að gera atlögu að sæti í aðalliðinu strax á næstu leiktíð.

„Það verður allt undir mér komið. Ef ég stend mig og næ að gera góða hluti ætti ég að geta komist í aðalliðið."


Tengdar fréttir

Breiðablik og AZ búin að ná saman

Fátt getur komið í veg fyrir að Jóhann Berg Guðmundsson gangi til liðs við AZ Alkmaar í Hollandi en félögin náðu saman um kaupverð nú síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×