Íslenski boltinn

Breiðablik og AZ búin að ná saman

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Berg í leik með Breiðabliki í sumar.
Jóhann Berg í leik með Breiðabliki í sumar. Mynd/Anton
Fátt getur komið í veg fyrir að Jóhann Berg Guðmundsson gangi til liðs við AZ Alkmaar í Hollandi en félögin náðu saman um kaupverð nú síðdegis.

Þetta staðfesti Einar Kristján Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, í samtali við Vísi.

Jóhann Berg skrifaði undir nýjan þriggja ára samning við Breiðablik nú fyrr í dag en hann var áður á áhugamannasamningi sem hefði runnið út í haust.

„Þessi samningur var gerður fyrst og fremst til að tryggja rétt okkar allra í þessari samningagerð, bæði hans og okkar. Við vissum ekki hvernig þetta myndi allt ganga eftir og við vildum að það væri enginn ágreiningur um hans samningsstöðu gagnvart okkur," sagði Einar.

„En við erum búnir að ná saman við AZ. Það kom í ljós núna áðan."

„Við erum sáttir og ánægðir með útkomuna. Þetta hefur vitanlega tekið langan tíma og hefur ekki verið við neinn að sakast í því."

Einar Kristján sagði að vissulega myndi peningurinn sem félagið fengi fyrir Jóhann Berg hjálpa til á þessum erfiðu tímum.

„Þetta mun hjálpa okkur að gera upp síðasta ár og hjálpar vitanlega til við það næsta."

Jóhann Berg mun halda til Hollands á morgun til að gangast undir læknisskoðun og skrifa undir þriggja ára samning við félagið. Möguleiki er að framlengja samninginn um tvö ár að honum loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×