Erlent

Ánægðir með niðurstöðu leiðtogafundarins

Leiðtogar 20 stærstu iðnvelda að fundi loknum í dag.
Leiðtogar 20 stærstu iðnvelda að fundi loknum í dag. MYND/AP
Leiðtogar 20 stærstu iðnvelda heims samþykktu í dag að koma efnahagskerfi heimsins aftur í gang með því að leggja í það eittþúsund milljarða dollara. Forystumenn Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands voru allir ánægðir að fundi loknum. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, fagnaði samþykktinni og sagði um að tímamótasamning væri að ræða.

Þúsund milljarðar dollara eru um eitthundrað og tuttugu þúsund milljarðar króna. Þessu fé á að koma inn í hagkerfi heimsins með aukafjárveitingum til alþjóðlegra stofnana eins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að sjóðurinn fengi fimmhundruð milljarða dollara aukafjárveitingu. Að auki fær hann 250 milljarða dollara til þess að örva viðskipti og aðra 250 milljarða dollara í sérstaka yfirdráttarheimild.

Ríkisstjórnir víða um heim hafa þegar veitt hundruðum milljarða dollara í að koma hagkerfinu í gang. Það er farið að skila sér og vonast er til að þessi aðgerð ýti undir traust á markaðinum.

Þá var ákveðið á fundinum að ráðast í aðgerðir gegn skattaparadísum.  Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti sagði að tíma bankaleyndar væri liðinn.

Þegar að Brown sleit fundinum sagði hann að niðurstaða leiðtoganna myndi leiða til þess að fjármálakreppan verði mun styttri en leit út fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×