Fótbolti

Efast um að Beckham snúi aftur í MLS

NordicPhotos/GettyImages

Alexi Lalas, fyrrum framkvæmdastjóri LA Galaxy, segir að það kæmi sér ekki á óvart ef David Beckham færi ekki aftur til bandaríska liðsins þegar lánssamningi hans við AC Milan lýkur.

Beckham klárar lánssamninginn við ítalska félagið í vor þegar MLS deildin fer aftur af stað, en Lalas, sem fékk Beckham til Galaxy árið 2007, er ekki viss um að hann snúi aftur.

"Ég hefði áhyggjur af því hvort hann kæmi til baka ef ég væri enn hjá Galaxy, já," sagði Lalas í samtali við BBC. "Hann verður að gera það sem hentar honum best."

Lalas er ekki viss um að Beckham muni hafa hug á að snúa aftur til Bandaríkjanna þegar hann er búinn að fá að spila með stórstjörnum á borð við Ronaldinho Kaka og Shevchenko.

"Hann vill eflaust standa sig vel með Galaxy, en maður á bara einn feril sem knattspyrnumaður. Hann á eftir að hagnast mikið á þessari reynslu að fara til Milan og ég hugsa að hann sé kominn aftur í sína uppáhaldsstöðu þegar hann spilar með þessum hæfileikamönnum. Það hlýtur út af fyrir sig að vera léttir fyrir hann að spila með Milan," sagði Lalas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×