Innlent

Þolinmæðin senn á þrotum

Obama og Medvedev funduðu í Singapúr í gær. fréttablaðið/ap
Obama og Medvedev funduðu í Singapúr í gær. fréttablaðið/ap
Barack Obama og Dimitrí Medvedev, forsetar Bandaríkjanna og Rússlands, sögðu í gær að tíminn væri við það renna út fyrir Íransstjórn að bregðast við sáttatillögu Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar í kjarnorkudeilunni. Obama og Medvedev hittust á fundi Efnahagssamtaka Asíu- og Kyrrahafsríkja í Singapúr.

Alþjóðasamfélagið hefur reynt að sannfæra írönsk stjórnvöld um að hætta að auðga úran og senda það í staðinn út úr landinu, til Rússlands og Frakklands, til auðgunar. Það lofar Írönum auknum viðskiptum og bættum pólitískum samskiptum verði þeir við kröfunni.

Obama sagði í gær að þolinmæðin væri senn á þrotum gagnvart Írönum, sem hafi dregið lappirnar í málinu. Medvedev tók í sama streng og sagði að mögulega þyrfti að beita annars konar aðferðum til að leysa deiluna, en útskýrði mál sitt þó ekki frekar.

Stjórnvöld í Íran segjast ekki munu svara tillögu Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar fyrr en full vissa sé fyrir því að viðsemjendur þeirra séu einlægir í loforðum sínum. Þau segja landið einungis ætla að nýta sér kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Vesturveldin óttast að Íranir ætli sér að smíða kjarnavopn.- kg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×