Innlent

Fyrsta kartöfluuppskeran í búðir í dag

Jón Bjarnason var sáttur við fyrstu uppskeru sumarsins.
Jón Bjarnason var sáttur við fyrstu uppskeru sumarsins.

Birkir Ármansson bóndi í Vestur-Holti í Þykkvabæ hóf snemma í morgun að taka upp nýjar íslenskar Premier kartöflur sem komu á markað á höfuðborgarsvæðinu í dag. Gera má ráð fyrir að um þrjú tonn af nýjum íslenskum kartöflum komi í búðir í fyrstu sendingu.

„Fyrsta uppskera sumarsins er óvenju snemma á ferð í ár eða rúmri viku fyrr en venjulega. Það bíða margir spenntir eftir því að fá glænýjar íslenskar kartöflur á diskinn sinn og því selst fyrsta sending jafnan fljótt upp. Nýjar íslenskar kartöflur munu hins vegar berast daglega í verslanir og magnið mun aukast þannig að það ættu allir að geta nálgast íslenskar kartöflur á næstu dögum," segir Þórhallur Bjarnason, formaður Sambands garðyrkjubænda:

Birkir og aðrir bændur í Þykkvabænum vinna nú baki brotnu á næturnar við að taka upp kartöflurnar svo hægt sé að koma þeim glænýjum í verslanir á morgnana, en kartöflurnar eru sendar til Reykjavíkur klukkan sex á morgnana og verður sá háttur hafður á næstu vikurnar.

Hefð hefur myndast fyrir því að Úlfar Eysteinsson, matreiðslumeistari á Þremur Frökkum, bjóði til sín nokkrum landsþekktum áhugamönnum um íslensku kartöfluna, sem bíða spenntir eftir að smakka á fyrstu uppskeru ársins, í rauðsprettu og glænýjar íslenskar kartöflur beint upp úr moldinni. Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, var meðal þeirra sem gæddu sér góðgætinu í dag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×