Innlent

Fengu milljarða í arð vegna hlutabréfa sem bankinn fjármagnaði

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Starfsmenn Kaupþings fengu milljarða í arðgreiðslur frá bankanum vegna hlutabréfaeignar sem bankinn hafði sjálfur fjármagnað. Starfsmennirnir hafa nú fengið niðurfelldar persónulegar ábyrgðir á lánunum þrátt fyrir að hafa hagnast verulega á kaupunum.

Kaupþing Búnaðarbanki varð til við sameiningu Kaupþings og Búnaðarbanka árið 2003. Strax á fyrsta aðalfundi hins nýja banka voru lagðar línurnar að því að starfsmenn gætu eignast allt að 9% í bankanum. Á næstu árum fór eignarhlutur starfsmanna vaxandi og var í ársreikningi bankans frá árinu 2007 komin upp í 7,8%.

Arðgreiðslurnar fóru einnig vaxandi á þessum árum samvara því að bankinn stækkaði. Á árunum 2003 til 2007 voru arðgreiðslur til hluthafa tæpur 41 milljarður íslenskra króna. Þeir starfsmenn sem eignast höfðu hlut í bankanum fengu sinn hluta af þessum arðgreiðslum. Svo dæmi sé tekið fengu starfsmennirnir rúmar 800 milljónir í arðgreiðslur árið 2007. Þeir Hreiðar Már og Sigurður Einarsson fengu um 608 milljónir í arðgreiðslur á árunum 2006 og 7.

Um 130 starfsmenn Kaupþings höfðu tekið lán hjá bankanum til hlutabréfakaupanna. Lögð var áhersla á að slíkar lánafyrirgreiðslur fælu ekki í sér persónulega áhættu fyrir starfsmenn og voru lánin oftar en ekki veitt með veði í bréfunum sjálfum. Rétt eftir hrun aflétti stjórn gamla Kaupþings persónulegum ábyrgðum á skuldum lykilstarfsmanna við bankann en lánin voru upp á samtals 50 milljarða króna. Starfsmennirnir sem höfðu tekið lán hjá bankanum til að kaupa hlutabréf og aldrei greitt krónu fyrir hirtu því milljarða í arðgreiðslur og hafa þar að auki fengið aflétt persónulegri ábyrgð á lánunum. Rétt er þó að taka það fram að starfsmenn Kaupþings greiddu tekjuskatt af kaupréttum á hlutum í bankanum.




Tengdar fréttir

Engin lán verið afskrifuð

Berghildur Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi Nýja Kaupþings vill koma eftirfarandi á framfæri vegna fréttar Stöðvar 2 um arðgreiðslur til starfsmanna Kaupþings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×