Erlent

Útfararstjórar grófu upp lík

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Fjórir útfararstjórar í Chicago hafa verið ákærðir fyrir að grafa upp mörg hundruð lík í þeim tilgangi að selja grafirnar aftur.

Fógetinn í Cook-sýslu í Illinois rannsakar nú furðulegt mál sem snýr að útfararþjónustu nokkurri þar á bæ. Svo virðist sem forsvarsmenn þjónustunnar hafi ákveðið að draga úr kostnaði sínum með því að endurnýta grafir. Talið er að þeir hafi grafið upp allt að 300 lík, dysjað þau í öðrum enda kirkjugarðsins og selt grafreitina svo upp á nýtt.

Í sumum tilfellum hafði ekki einu sinni verið haft fyrir því að grafa gömlu líkin upp áður en ný voru jarðsett og fundust sums staðar nokkur lík í stafla í sömu gröfinni. Útfararstjórarnir hafa verið látnir lausir gegn 200.000 dollara tryggingu á hvern þeirra þar til réttarhöldin hefjast en talsmaður ákæruvaldsins lét hafa það eftir sér í viðtali við CNN að þarna væri komin algjörlega ný vídd af afbrotum.

Hann sagði að útfararstjórarnir hefðu einkum valið eldri grafir fyrir þessa óvenjulegu endurvinnslu með það fyrir augum að fáir eða engir kæmu í kirkjugarðinn til að vitja þeirra. Dæmi væru um að fólk sem lést um miðja síðustu öld hefði verið grafið upp og aðrir settir í þeirra stað. Sannast þar hið fornkveðna, að eins dauði er annars brauð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×