Innlent

Íhuga að biðja um lögbann á brennu

Á myndinni má sjá hversu nálægt hesthúsunum búið er að hlaða bálköstinn. Mynd/pétur A. maack
Á myndinni má sjá hversu nálægt hesthúsunum búið er að hlaða bálköstinn. Mynd/pétur A. maack
Forsvarsmenn hestamannafélagsins Andvara hafa miklar áhyggjur af brennu sem til stendur að halda 140 metra frá hesthúsabyggð að Heimsenda í Kópavogi í kvöld. Íhuga þeir nú að fara fram á lögbann á brennuna eftir að óskum þeirra um að staðsetningin verði endurskoðuð hefur ítrekað verið hafnað.

„Yfirgangurinn er með ólíkindum,“ segir Pétur A. Maack, formaður Andvara. Þegar haldin sé brenna svo nálægt hesthúsum sé mikil hætta á að reyk leggi yfir byggðina og hrossin veikist eða að þau fælist af hljóðum og blossum frá flugeldum og hávaða frá brennugestum. Dýrin geti þannig slasast illa. Jafnvel þótt hestamennirnir hafi verið fullvissaðir um að ekki verði kveikt í brennunni ef vindátt verður óhagstætt sé ljóst að hún geti breyst snarlega.

„Við teljum að yfirvöld hafi sýnt af sér verulegt kæruleysi með þessu. Þetta er ótrúlegt tillitsleysi við dýrin og hestamennskuna,“ segir Pétur.

Pétur segist frá því á þriðjudag hafa átt samskipti við alla sem hafi þurft að veita leyfi fyrir brennunni; lögreglu, slökkvilið, bæjaryfirvöld í Kópavogi og heilbrigðiseftirlit. Alls staðar hafi málaleitunum hans verið hafnað með vísan til þess að reglugerðir banni ekki brennuhald svo nærri hesthúsabyggð. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×