Lífið

Mínus sver eið

Nýja fjögurra manna útgáfan af Mínus.
Nýja fjögurra manna útgáfan af Mínus.
Að sögn Krumma er nú „geðveikur æsingur“ í hljómsveitinni Mínus að setja allt í gang á ný eftir pásu. „Við höfum svarið þess eið að koma með nýja plötu á þessu ári,“ segir söngvarinn. „Það er mikill metnaður í okkur og við erum byrjaðir að hittast og ræða málin. Næst á dagskrá er bara að hendast í hús, semja, æfa og koma sér í gírinn.“

Síðast var Mínus á ferðinni árið 2007 með plötuna „The Great Northern Whale­kill“ en um svipað leyti og platan kom út urðu mannaskipti í bandinu. Frosti og Þröstur hættu, en Bjössi, Bjarni og Krummi héldu áfram og fengu bassaleikarann Sigurð Oddsson inn. „Þetta band hefur bara tekið upp eitt lag og við erum spenntir fyrir að gera fleiri. Menn hafa verið að sýsla við hitt og þetta en þetta ár verður Mínuss.“

Krummi á von á beittari textum en vanalega enda árferðið kjörið til þess. „Það er ekki hægt annað en að vera pólitískur í dag. Ekki nema maður sé heiladauður, það er að segja,“ segir Krummi. Hann ætlar jafnvel að taka pólitísku línuna enn þéttar í hliðarbandinu Deadfuck. „Það er nú bara svona týpískt fyllirísband, sem ég og nokkrir vinir höfum talað um, hálfgert djók. Hugmyndin er að Deadfuck spili industrial tónlist, pólitískan og pönkaðan framtíðarmetal. Kannski verður einhvern tímann eitthvað úr þessu.“

- drg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.