Innlent

Fjöldi ótryggðra ökutækja hefur tvöfaldast

Fjöldi ótryggðra ökutækja í umferðinni hefur nærri tvöfaldast á undanförnum fjórum árum. Vanskil vegna bílatrygginga jukust verulega í kringum bankahrunið.

Öllum bifreiðaeigendum er gert skylt að greiða ábyrgðartryggingu sem tryggir þá fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda.

Þegar tryggingarnar eru ekki greiddar er lögreglunni gert viðvart og bíllinn tekinn úr umferð með því að klippa númeraplötu. Tími lögreglunnar til þessa er þó takmarkaður og ekki finnast alltaf bílarnir.

Samkvæmt samantekt umferðarstofu hefur fjöldi ótryggðra ökutækja í umferðinni nærri tvöfaldast á síðustu fjórum árum. Er það í litlu samræmi við stækkun bílaflota landsmanna yfir sama tímabil.

Fyrir fjórum árum voru um 2.500 ótryggð ökutæki í umferðinni en í dag eru þau rúmlega 4.300 talsins.

Samkvæmt upplýsingum frá tryggingafélögum jukust vanskil á greiðslum ábyrgðatrygginga ökutækja verulega í kringum bankahrunið. Ástandið hefur verið að lagast í sumar en upp úr stendur að fjöldi ótryggðra ökutækja í umferðinni hefur sjaldan verið jafn mikill og nú.

Í sumum tilfellum getur verið að ökutækjaeigandi hafi einfaldlega vanrækt afskrá bifreið sem ekki er í notkun.

Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi tryggja rétt þeirra sem verða fyrir tjóni af völdum ótryggðra ökumanna.

Félagið sendir þó oftast reikning á hinn ótryggða ökumann þannig á endanum þarf hann að greiða fyrir allt úr eigin vasa, þar með talið eignatjón og sjúkrakostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×