Innlent

Álfheiður bað sjálfstæðismenn afsökunar

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, bað Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins og aðra þingmenn flokksins, afsökunar á þeim ummælum sínum, að þeir væru ekki að vinna vinnuna sína.

Ummæli Álfheiðar féllu í umræðum um störf þingsins á Alþingi. Þingmenn tókust harkalega á, en meðal annars var rifist um hversu lengi þingið skyldi starfa þennan daginn. Fram kom hjá Arnbjörgu Sveinsdóttur að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vildu ekki að þingfundur stæði lengur en til miðnættis.

Sjálfstæðismenn sögðu að á dagskrá væru fjölmörg óþörf mál sem snertu ekki hagsmuni fyrirtækja og heimila í landinu. Aftur á móti töldu stjórnarþingmenn að um mörg samkomulagsmál væri að ræða þannig að þingfundur ætti að geta gengið eðlilega fyrir sig. Þegar þingfundur hófst voru 26 mál á dagskrá.

Álfheiður sakaði sjálfstæðisþingmenn um leti, að þeir nenntu ekki að vinna vinnuna sína. Ragnheiður Ríkharðsdóttir brást ókvæða við og mótmælti. Hún hefði ekki svikist undan vinnu frá því að hún var kjörin á þing og krafðist afsökunarbeiðni.

Álfheiður tók til máls að nýju. Hún sagði að sér hefði hlaupið kapp í kinn í umræðunni. Sér væri bæði ljúft og skylt að biðja Ragnheiði og aðra sjálfstæðismenn afsökunar á ummælum sínum.



,,Hvers konar vitleysa er þetta?"


Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að almenningur í landinu bíði eftir því Alþingi ljúki afgreiðslu brýnna mála. Hann sagði þingmönnum væri engin vorkunn að þurfa að vinna sig í gegnum þau mál sem væru á dagskrá.

,,Hvers konar vitleysta er þetta?" spurði Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og kallaði Árna Pál fjölmiðlafulltrúa forsætisráðherra.

,,Hér ægir öllu saman. Inn á milli eru vissulega brýn mál," sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og bætti við að flokkur sinn vildi gjarnan taka þátt í afgreiðslu þeirra. ,,Meirihluti þessara mála eru ekki í neinu samræmi við þann efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×