Innlent

Aldrei fleiri flensusjúklingar á spítala

Landspítali. Spítalinn er nú starfræktur á virkjunarstigi viðbragðsáætlunar. Langur vegur er frá að færa þurfi starfsemina upp á neyðarstig, sem er efsta stig áætlunarinnar, að sögn Björns Zöega forstjóra.
Landspítali. Spítalinn er nú starfræktur á virkjunarstigi viðbragðsáætlunar. Langur vegur er frá að færa þurfi starfsemina upp á neyðarstig, sem er efsta stig áætlunarinnar, að sögn Björns Zöega forstjóra.

 Aldrei hafa fleiri legið inni á Landspítala af völdum svínaflensu en í gær. Þá höfðu átta nýir lagst inn en enginn verið útskrifaður. Samtals voru 43 inniliggjandi, þar af ellefu á gjörgæslu. Yngsti gjörgæslusjúklingurinn var tveggja ára en sá elsti rúmlega áttræður.

„Við þolum ástandið,“ segir Björn Zöega, forstjóri Landspítala, um stöðuna. Hann segir spítalann enn starfræktan á virkjunarstigi viðbragðsáætlunar en langur vegur sé frá að færa þurfi starfsemina upp á neyðarstig, sem er efsta stig áætlunarinnar.

„Hvað varðar gjörgæsludeildirnar þá rétt sleppur þetta enn þá en við gætum þurft að stækka þær um helgina,“ segir Björn. „Staðan verður endurmetin næst á sunnudaginn.“

Á Sjúkrahúsinu á Akureyri voru þrír inflúensusjúklingar í gær, enginn þeirra á gjörgæsludeild. Langflest inflúensutilfelli hérlendis, undanfarna daga og vikur, greinast hjá börnum á aldrinum 0 til 9 ára, að því er fram kemur í tilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Þetta er marktæk breyting frá því í júlí og ágúst þegar flestir sem veiktust voru á aldrinum 15 til 30 ára.

Hvað varðar almenna bólusetningu við inflúensunni eru horfur á að unnt verði að hefja hana fyrr en gert var áður ráð fyrir, það er í síðari hluta nóvember í stað desember. Ástæðan er sú að meira berst af bóluefni til landsins næstu daga og vikur en reiknað var með í upphaflegum áætlunum, samkvæmt upplýsingum Haraldar Briem sóttvarnalæknis. Um helgina koma hingað 26 þúsund skammtar og meira bóluefni síðar í vikunni.

Nú er búið að bólusetja yfir 20 þúsund af alls um 75 þúsund manns sem miðað er við að séu í skilgreindum forgangshópum bólusetningar samkvæmt tilmælum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO. Neyðarstjórn hefur verið skipuð í hverju sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu fyrir sig vegna flensufaraldursins, undir formennsku framkvæmdastjóra viðkomandi sveitarfélags. Komi til þess að neyðarstjórn verði virkjuð starfar hún í samráði við aðgerðastjórn almannavarna á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin vinna nú öll eftir samræmdum viðbragðs­áætlunum sem gerðar voru undir umsjón Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til að tryggja órofna lykilþjónustu á meðan inflúensufaraldur gengur yfir.

jss@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×