Erlent

Vilja stöðva frekari stækkun ESB

Heimskreppan gerir að verkum að æ fleiri aðildarríki Evrópusambandsins vilja stöðva frekari stækkun þess. Meðal þeirra eru bæði Frakkland og Þýskaland.

Fréttaritari norska blaðsins Aftenposten í Brussel segir að Angela Merkel kanslari Þýskalands vilji stöðva frekari stækkun Evrópusambandsins eftir að Króatía fær aðild sem líklega verður á þessu ári.

Merkel segir að þetta sé engin óskastaða. Sambandið verði hinsvegar að fá tíma til þess að styrkja stöðu sína og jafna sig á þeirri stækkun sem þegar hefur orðið.

Það þurfi tíma til að styrkja sjálfsvitund sambandsins og stofnanir þess. Engum sé greiði gerður með Evrópu sem sem ekki hafi bolmagn til þess að klára aðlögun þeirra ríkja sem fyrir eru.

Ekki sé hægt að taka ný ríki inn of fljótt, Króatía verði að vera eina undantekningin á þessu ári.

Fréttaritari Aftenposten segir að Bosnía, Serbía, Makedónía, Albanía og Svartfjallaland hafi gefið í skyn ósk um aðild og margir búist við að Ísland sæki um.

Önnur lönd taka í sama streng til dæmis Frakkar. Bretar eru hinsvegar á öðru máli.

David Miliband utanríkisráðherra Bretlands sagði í viðtali við pólskt dagblað að efnahagskreppan mætti ekki koma í veg fyrir að lönd eins og Tyrkland og Ísland hefðu sambandsaðild sem takmark.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×