Innlent

Kosningaplagg eða krafa þjóðfélagsins

Umræðu um stjórnskipunarlög, sem frestað var á þriðjudag, var fram haldið í gær, samkvæmt samkomulagi. Sjálfstæðismenn gagnrýna frumvarpið harðlega.fréttablaðið/gva
Umræðu um stjórnskipunarlög, sem frestað var á þriðjudag, var fram haldið í gær, samkvæmt samkomulagi. Sjálfstæðismenn gagnrýna frumvarpið harðlega.fréttablaðið/gva

Fyrstu umræðu um stjórnskipunarlög lauk á Alþingi í gær, en henni hafði verið frestað kvöldið áður. Illa gekk að hefja umræðuna þar sem Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýndi harðlega að hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né Steingrímur J. Sigfússon, fyrstu flutningsmenn, voru í salnum. Fundi var frestað í 10 mínútur á meðan ráðherrarnir komu sér í hús.

Sjálfstæðisflokkurinn hélt áfram uppi harðri gagnrýni á frumvarpið. Geir H. Haarde kvartaði undan samráðsleysi, bæði við þing og þjóð, og efaðist um að málið væri unnið af fullum heilindum. Hann velti því upp hvort það væri lagt fram til að friða Framsóknarflokkinn. Augljós mótsögn væri fólgin í því að breyta nokkrum greinum stjórnarskrár áður en hún væri send til meðferðar stjórnlagaþings.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók undir þessa gagnrýni og spurði hvort frumvarpið væri kosningaplagg. Björn Bjarnason og Bjarni Benediktsson sögðu það að fela stjórnlagaþingi stjórnarskrárbreytingu græfi undan virðingu Alþingis og Bjarni gagnrýndi að engin hugmynd væri um kostnað.

Steingrímur J. Sigfússon sagði alþekkt að stjórnarskrá væri breytt skömmu fyrir kosningar. Hann rifjaði upp að sjálfur hafði hann beðið þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, um að halda áfram starfi stjórnarskrárnefndar eftir kosningar 2007. Geir hafi sagt það óþarfa, nóg væri að huga að því skömmu fyrir kosningar. Þá sagði hann forystumenn hafa brugðist þjóðinni og því þyrfti hún sjálf að setja sér reglur.

Össur Skarphéðinsson tók undir það og sagði það reynslu sína á setu í stjórnarskrárnefnd að þar dyttu menn í pólitískar skotgrafir. Því væri málinu betur komið fyrir hjá þjóðinni. Nefnd sú sem hann átti sæti í hefði haldið ráðstefnur og fengið fullt af hugmyndum frá almenningi en enginn vilji hefði verið fyrir því að fara eftir þeim.

Siv Friðleifsdóttir sagðist undrast að Sjálfstæðisflokkurinn læsi samfélagið ekki réttara en svo að hann réðist gegn hugmyndum um stjórnlagaþing. Þá sagði Eygló Harðardóttir blinda trú Sjálfstæðisflokksins hafa komið samfélaginu í rúst og nú ætlaði hann að koma í veg fyrir að hægt væri að þrífa upp eftir hann. kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×