Innlent

Kjósendur geti knúið fram kosningar

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar

Tíu þingmenn Samfylkingarinnar vilja breyta kosningalögunum á þann veg að meirihluti kjósenda, hvort heldur er í einstöku sveitarfélagi eða á landsvísu, geti knúið fram kosningar.

Helgi Hjörvar er fyrsti flutningsmaður frumvarps um breytingarnar sem jafnframt gera ráð fyrir að aukinn meirihluti sveitarstjórnar geti efnt til kosninga.

„Þetta mál hefur verið í undirbúningi frá því eftir stjórnarkreppuna sem varð í Reykjavík á sínum tíma,“ segir Helgi Hjörvar. Þá hafi komið í ljós þörfin fyrir að kjósendur hafi lýðræðisleg úrræði til að knýja fram breytingar.

Helgi segir hugsunina ekki þá að þessi breyting verði virkur hluti af kosningakerfinu enda sé stjórnfesta ekki síður mikilvæg en lýðræðið. „Þessi réttur kjósenda veitir stjórnvöldum aðhald,“ segir hann.

Hávær krafa um þingkosningar nú hvatti fremur en latti þingmennina tíu. „Við sjáum mikilvægi þess að andófsöfl á hverjum tíma hafi skýr lýðræðisleg tækifæri til að vinna sínum málstað fylgi því að fólk getur upplifað sig máttvana ef lýðræðið á bara að virka á fjögurra ára fresti. Áður höfðu menn þær hugmyndir að stjórnvöld væru betur upplýst og þyrftu því að geta tekið óvinsælar ákvarðanir en í menntuðu upplýsingasamfélagi dagsins í dag eiga þau rök ekki við því kjósendur eru jafn dómbærir á nauðsyn kosningar og kjörnir fulltrúar. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×