Innlent

Fjórir teknir fyrir hraðakstur í Hafnarfirði

Fjórir ökumenn voru staðnir að hraðakstri á Hjallabraut í Hafnarfirði í dag en þar var staðsett ómerkt lögreglubifreið sem er búin myndavélabúnaði.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir reynslan hafi sýnt að notkun slíks búnaðar gefi gagnlegar upplýsingar um ástand umferðarmála og auðveldar leit að lausnum þar sem þeirra er þörf. Mælingarnar í dag eru hluti af sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í og við íbúðargötur í umdæminu.

Eins og fyrr sagði voru brot fjórir ökumanna mynduð á Hjallabraut, sunnan Skjólvangs, en á þessum stað er leikskóli við götuna. Fylgst var með ökutækjum, fyrir hádegi, sem var ekið í suðurrátt en þarna er 50 km hámarkshraði. Á einni klukkustund fóru 30 ökutæki þessa akstursleið og því óku 13% ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða. Sá sem hraðast ók mældist á 63.

Lögreglan var einnig við hraðamælingar á Drekavöllum í Hafnarfirði eftir hádegi í dag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið í austurátt, við Hraunvallaskóla, en þarna er 30 km hámarkshraði. Á einni klukkustund fóru 14 ökutæki þessa akstursleið en þeim var öllum ekið á löglegum hraða.

Fyrir nákvæmlega ári var lögreglan við hraðamælingar á þessum sömu stöðum en þá óku hlutfallslega mun fleiri of hratt eða yfir afskiptahraða á Hjallabraut. Líkt og í fyrra virðast ákaflega löghlýðnir ökumenn fara um Drekavelli en þá voru sömuleiðis allir á löglegum hraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×