Enski boltinn

Skilur enn ekki af hverju hann var rekinn frá City

NordicPhotos/GettyImages

Sven Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Mexíkó, segist enn ekki botna neitt í því af hverju hann var látinn fara frá Manchester City á síðasta tímabili.

City byrjaði mjög vel undir stjórn Svíans og var í toppbaráttu framan af tímabili, en þó liðið hafi nánast hrunið á síðari helmingi leiktíðarinnar, endaði það samt í níunda sæti og náði Evrópusæti vegna prúðmennsku.

"Enn þann dag í dag, botna ég ekkert í þessari uppsögn," sagði Sven í samtali við World Soccer, en hann var rekinn af Thaksin Shinawatra, fyrrum eiganda City.

"Við vorum eitt af þremur eða fjórum bestu liðunum í deildinni fram að jólum en eftir það virtist tímabilið vera of langt fyrir flesta leikmenn okkar. Það voru of margir menn í liðinu sem voru óvanir að spila í ensku úrvalsdeildinni og þeir höfðu ekki úthald í það. Það var mikið ævintýri að geta keppt við þá bestu," sagði Svíinn.

Endasprettur liðsins var eigandanum ekki að skapi og því ákvað hann að láta Eriksson fara. Svíinn hefur þó ekki erft það við hann.

"Eigandinn virtist vilja fá annan mann til að stýra liðinu. Hann var í vandræðum heima fyrir og sagði mér reyndar að honum þætti vænt um mig skömmu eftir að hann rak mig. Ég er nokkuð viss um að hann var einlægur," sagði Eriksson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×