Innlent

Báturinn enn innsiglaður við höfnina

Sjómanni, sem veiddi kvótalaus og án leyfis fyrir ári síðan, hefur enn ekki verið birt ákæra. Bátur hans liggur innsiglaður við höfnina.

Sjómanni, sem veiddi kvótalaus og án veiðileyfis fyrir ári síðan, hefur enn ekki verið birt ákæra. Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir útskýringum og sent Lögreglustjóra Suðurnesja bréf vegna málsins. Embættið er komið mánuð framyfir þann frest sem umboðsmaður gaf.

Í byrjun júlí í fyrra var Ásmundur Jóhannsson, sjómaður úr Sandgerði, sviptur veiðileyfi. Hann gaf lítið fyrir fiskveiðistjórnunarkerfið, sagði kvótann í eigu þjóðarinnar og hélt á haf út. Ásmundur benti á álit mannréttindadómstóls Sameinuðu þjóðanna aðgerðum sínum til stuðnings, sem í fyrra gaf út að íslenska ríkið ætti að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið og greiða tveimur mönnum sem dæmdir voru fyrir ólöglegar veiðar, skaðabætur.

Eftir að hafa veitt, án leyfis og kvóta í rúman mánuð var bátur Ásmundar loks stöðvaður og innsiglaður í byrjun ágúst. Það var á forræði lögregluyfirvalda á Suðurnesjum að reka málið fyrir dómi. Þaðan hefur hins vegar engin kæra borist, þá tæpa ellefu mánuði sem liðnir eru frá því báturinn var innsiglaður við höfnina í Sandgerði. Ásmundur hefur í tvígang sent lögreglunni bréf en engin svör fengið.

Lúðvík Kaaber, lögfræðingur fer með mál Ásmundar. Hann segir umboðsmann hafa gefið lögregluembættinu á Suðurnesjum frest til þriðja júní til að svara bréfi hans. Í bréfinu óskar umboðsmaður eftir svörum við því hvernig rannsókn málsins miðar og jafnframt eftir hvaða lögum var farið þegar bátur hans var kyrrsettur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×